Skip to main content

Þróa nýja gerð af steinsteypu

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. ágú 2025 18:04Uppfært 07. ágú 2025 18:05

Sunna Ólafsdóttir Wallevik, efnafræðingur frá Egilsstöðum, er meðal þeirra sem vinna að þróun umhverfisvænni steinsteypu en notuð hefur verið til þessa. Hún segir til mikils að vinna því steinsteypa stendur undir 10% af losun koltvíoxíðs í heiminum.


Steinsteypa er í eðli sínu annars vegar bindiefni, það er sement, og hins vegar fylliefni, það er möl. Sement er mest framleidda efni heims og er talið standa undir 6-8% losunar.

Sunna hefur komið að þróuninni í gegnum sprotafyrirtækin Gerosion og Rockpore og fjallaði um vinnu sína á umhverfisráðstefnu Austurlands sem haldin var á vegum verkefnisins Eyglóar í byrjun júní.

Varaði við að flytja mikilvæg efni úr landi


Gerosion hefur unnið að því að þróa steinlím, sem kallast AlSiment, í stað sements. Þau byggja á sementsíaukum, sem geta bæði verið fínefni úr iðnaði eins og kísilryk en félagið hefur unnið með járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Einnig er hægt að nota gosefni sem kælst hafa niður undir jöklum en tilraunir hafa verið gerðar með gosösku úr Eyjafjallajökli.

Sunna varaði við að Íslendingar eftirlétu öðrum að vinna þessi efni og senda úr landi frekar en að nota þau sjálfir. „Við erum mikið í óþarfa inn- og útflutningi.“

Vinna Gerosion hefur vakið athygli því fyrirtækið fékk nýsköpunarverðlaun forseta Íslands í fyrra. Sunna sagði rannsóknir benda til þess að við vinnslu AlSiment losni 70% minna koltvíoxíð en við hefðbundna sementsvinnslu en fyrirtækið vilji ná lengra þannig að steinlímið bindi kolefni og verði þannig kolefnishlutlaus eða jafnvel neikvætt, það er bindi meira en það losi.

Þá hefur Gerosion þróað aðferð í samstarfi við Elkem til að safna saman fínefnum úr framleiðslunni og binda þau í köggla, sem þar með er hægt að nota í framleiðslu. Þar með nýtist hráefnið betur og miklir peningar sparist.

Endurnýtt efni í steypuna


Rockpore hefur horft á hinn hluta steinsteypunnar, það er fylliefnin. Hugmyndin er að nota ólífrænan úrgang sem hringrásarfylliefni. Með þessu er átt við að endurnýta gamalt gler eða hreinlega gamla steypu í staðinn fyrir mölina, enda sé urðun efnanna að verða dýr eða bönnuð. Með þessu væri hægt að nota steinsteypu aftur og aftur. Fyrirtækið áformar að setja upp verksmiðju í Helguvík á Reykjanesi sem yrði sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.