Skip to main content

Breytingar í byggingariðnaði mikilvægar til að draga úr kolefnislosun

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. júl 2025 17:03Uppfært 01. ágú 2025 11:35

Minna kolefnisspor í byggingariðnaði undir yfirskriftinni „Hvernig byggjum við 2050?“ var leiðarstef Umhverfisráðstefnu Austurbrúar, sem Eygló – verkefni um orkunýtingu og hringrásarhagkerfi og verkfræðistofan Efla héldu fyrr í sumar.


Alexandra Kjeld, umhverfisverkfræðingur frá Eflu, sýndi glæru með tölum um að byggingar standi undir 40% af losun koltvíoxíðs á heimsvísu. Mest komi úr rekstri, eða orkunotkun, 27% en 13% frá framleiðslu byggingarefna. Hún sagði mikilvægt að huga að því strax í upphafi hvernig byggingin yrði, því 80% kolefnisspora verkefna séu ákveðin á hönnunarstigi.

Hún sagði kolefnisspor bygginga hérlendis vera öðruvísi en erlendis. Þar byggist það mikið til á orkunotkun á meðan hérlendis séu það byggingarefnin sem skilji eftir sig mest spor. Helga Bjarnadóttir frá Eflu sagði að umbreytingar í byggingageiranum væru hægar, hús væru gerð til að endast. Þau væru dýr og þess vegna væri notast við þekktar aðferðir frekar en að gera tilraunir.

Alexandra sagði vottanir hafa bætt umræðu og þekkingu. Hún sagði vottanir ekki vera fyrir alla til þessa, heldur fyrir þá sem vildu taka áskorunina, sýna ábyrgð og skara fram úr. Það hefði orðið öðrum til góðs. Við vottanir á byggingum hefði orðið til mikið af gögnum og þar með þekkingu sem nýttist í byggingar síðar þótt þær væru ekki endilega vottaðar.

Við vottun er ekki bara horft til framkvæmdarinnar sjálfrar, heldur rekstrar hennar, landnotkunar og áhrifa á fólkið sem í henni starfar. Þekking úr vottunum hefur þannig skilað sér í lægri rekstrarkostnaði. Helga bætti við að horfa þyrfti á kostnað við byggingar allan þeirra líftíma, ekki bara á meðan þær væru byggðar. Freistni væri til staðar fyrir verktaka til að byggja sem ódýrast ef þeirra eini tilgangur væri að selja bygginguna.

Kunnum endurnýtingu með torfbæjunum


„Allar byggingar í dag eru óumhverfisvænar,“ voru upphafsorð fyrirlestrar Arnhildar Pálmadóttur. Hún er arkitekt hjá Lendager og hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2024, fyrir að fara nýjar leiðir í að ná niður kolefnisspori bygginga. Hún hefur komið að verkefnum, bæði hérlendis og í Danmörku, sem snérust um að endurnýta byggingarefni.

Arnhildur ræddi hugsunarhátt Íslendinga og hvernig hann yrði að breytast. Til dæmis væri tilraun að banna að flytja úrgang úr landi í þrjú ár, þá myndi hann safnast upp og Íslendingar sæju hverju þeir væru að henda. Hún kom inn það á hvernig gamla Morgunblaðshúsið, með marmara og glæsilegum innréttingum, hefði verið notað til æfinga hjá sérsveitum og sprengjusérfræðingum. Þar með hefði vel nýtilegu húsi og efnivið verið rústað.

Arnhildur sagði líka að Íslendingar hefðu með torfbæjunum kunnað að endurnýta byggingarefni. Sömu húsin hefðu í raun verið endurbyggð aftur og aftur. Arkitektastofan hafi gert lífsferilsgreiningu á torfbæ og hún hafi verið neikvæð, það er torfbærinn bindi meira en hann losi.

Þarf þolinmæði á meðan tilraunir eru gerðar


„Það er ljóst að endurnýting efnis verður að vera stór þáttur í lausnunum. Það er hægt að reisa mjög fallegar byggingar úr endurnýttu efni, “ sagði hún. Best er að geta nýtt efni aftur á þeim stað sem það fellur til og á sama hátt. Forsenda sé þó að greina ástand efnis vel.

Hún sagði reynsluna úr fyrrnefndum verkefnum vera að framkvæmdir væru aðeins dýrari eða svipað dýrar og nýbyggingar. Það ætti ekki að vera en væri eðlilegt þar sem allir væru að fara í gegnum ferlið í fyrsta sinn. Því þurfi þolinmæði. Kostnaðurinn færist frá efni yfir í hönnun og undirbúning. Hún sagði þörf vera á að hugsa út í hvernig kostnaðurinn muni þróast. Danir séu til dæmis að fara að skattleggja nýbyggingar sem fari yfir kolefnisviðmið.

Arnhildur kom einnig inn á hvernig huga þyrfti að skipulagi svæða og talaði oft um að nota „bóndavitið, “ til dæmis að hugsa hvar sólin komi upp og hvaða áhrif það hafi á bygginguna.

Er hægt að móta fljótandi hraun?


Það framúrstefnulegasta í hugmyndum Arnhildar er trúlega notkun óstorknaðs hrauns til bygginga. Hraunið hafi eiginleika svo sem einangrun og styrk eða innihaldi efni sem eftirsótt eru til bygginga. Lendager hefur tekið þátt í slíkum frumrannsóknum. „Gufuaflið var líka eitt sinn vísindaskáldskapur. Það sem við vitum er að við munum ekki byggja eins og við gerum í dag og byggingarnar munu ekki líta eins út.“

Þurfum að breyta því sem okkur finnst vera venjulegt


„Að við förum að hugsa um það sem þykir vera framúrstefnulegt sem eðlilegt, gerist ekki nema við framkvæmum þessa hluti,“ sagði Brynjar Þorri Magnússon, arkitekt hjá Sniddu á Egilsstöðum, í umræðum í pallborði.

Brynjar tilheyrir nýrri kynslóð, útskrifaðist úr arkitektanámi hérlendis í fyrra og stefnir á framhaldsnám í Englandi í haust. „Í mínum kreðsum er talað um að nýta gömlu byggingarefnin. Nýsköpun er ekki bara plast, það er verið að gera áhugaverða tilraun með fyrsta íslenska húsið úr hampsteypu.“

Í pallborði, frá vinstri: Helga Bjarnadóttir, ráðstefnustjóri frá Eflu, Gunnlaugur Guðjónsson frá Landi og skógi, Arnhildur Pálmadóttir arkitekt, Alexandra Kjeld frá Eflu, Jóhanna Helgadóttir, skipulagsfræðingur, Sunna Ólafsdóttir Wallevik, efnafræðingur, Hrafnkatla Eiríksdóttir verkefnastjóri hjá Eygló og Brynjar Þorri Magnússon, arkitekt frá Sniddu. 

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.