Sigurgeir leggur í Ermasundið í nótt
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. júl 2025 16:03 • Uppfært 18. júl 2025 16:08
Sigurgeir Svanbergsson, sjósundmaður frá Eskifirði, hefur í nótt sund sitt yfir Ermasund í þágu Pieta-samtakanna, sem vinna gegn sjálfsskaða. Sigurgeir segist hafa byrjað að stunda sjósund til að vinna bug á kuldahræðslu sinni. Hann var alls ekki verið góður sundmaður þegar hann byrjaði.
Sigurgeir kom í vikunni til ensku hafnarborgarinnar Dover og gert er ráð fyrir að hann hefji sundið á miðnætti að íslenskum tíma, eða eitt eftir miðnætti að staðartíma, í nótt. Þaðan til Calais í Frakklandi eru 34 kílómetrar.
Straumar og vindar hafa hins vegar sitt að segja. Áætlað er að sundið taki Sigurgeir um 20 tíma. Honum til halds og trausts er Sigrún Þuríður Geirsdóttir sem fyrir áratug synti yfir Ermasundið fyrst íslenskra kvenna. Það tók hana 22,5 tíma en hún synti alls tæpa 63 kílómetra.
Vildi yfirbuga kuldaskræfuna
Það var hins vegar ekki einstakur áhugi á sundi sem hvatti Sigurgeir út í sjósundið á sínum tíma. „Ég hef alltaf verið töluverð kuldaskræfa, er reyndar ennþá, og mér líkar það illa. Ég vildi reyna að yfirstíga þetta og láta reyna á sjálfan mig. Þetta var árið 2020 sem ég fór að labba út í sjó og markmiðið í upphafi var að geta verið ofan í í þrjár mínútur í senn.
Það leið ekki á löngu áður en ég fór að finna dópamínskammtinn sem þetta gaf mér. Þrjár mínútur í köldum sjónum gáfu mér alveg heljarinnar skammt af dópamíni og mér leið svo vel eftir á. Þetta var og er ákveðin víma en til þess að ná henni þarf maður að slaka alveg á ofan í. Ég er reyndar í dag kominn með smá þol svo kuldinn verður að vera verulegur til að ég finni slíkt í dag.“
Grettissundið það erfiðasta
Sigurgeir vildi ganga lengra. Fyrst synti hann um á Eskifirði, frá húsinu sínu að Randulfssjóhúsi, um 100 metra leið. Síðan út á Mjóeyri. Næst var það Kollafjörður í Reykjavík, síðan Eskifjörðurinn þver og loks endilangur. „Alltaf bætti ég í því ég er þannig gerður að ég þarf alltaf að vera að bæta mig í öllu og ég meira að segja hef velt fyrir mér í vetur hvernig ég geti hugsanlega toppað Ermasundið ef það gengur allt upp. Maður er dálítið skrýtinn í hausnum.“
Síðsumars 2023 synti hann Grettissund, 7 km leið út í Drangey á Skagafirði. Það er erfiðasta sundið sem hann hefur synt. „Ég lenti í marglyttutorfu. Ég kom bókstaflega röndóttur úr því sundi og var allur strípaður í lokin. Snerting við þau kvikindi valda alveg sárum og það voru enn angar úr marglyttum fastir á mér þegar ég kom upp úr. En svo merkilegt er að ég fann ekkert fyrir neinu fyrr en ég kom upp úr og fór ofan í heitan pott. Maður er enda verulega dofinn í líkamanum eftir svo langan tíma í sjónum.“
Í nóvember í fyrra synti hann yfir frá Reyðarfirði til Eskifjarðar með Sóleyju Gísladóttur, sambýliskonu sína, á kajak í eftirdragi. Það sund var, líkt og nú, áheitasund fyrir Píeta-samtökin.
Lærði skriðsund á YouTube
Það var hins vegar fyrsta sundið sem hann synti með réttri tækni. Hann segist hafa byrjað sjósundið á „klaufalegu bringusundi.“ Þegar hann ætlaði að synda frá Vestmannaeyjum til lands var honum bent á að vegna sterkra strauma þyrfti hann helst að synda skriðsund því það útheimti minni orku.
„Svo ég fór á YouTube að læra skriðsund og hélt í kjölfarið að ég væri orðinn þvílíkur skriðsundsmaður. Það breyttist eftir Eyjasundið þegar gamall vinur minn, sem er sundþjálfari hringdi í mig. Hann sagði geggjað að hafa séð mig klára það sund en að ég hefði beinlínis ekki gert neitt rétt. Ég fór það sund sem sagt á einhverju þrjóskurugli og mér fannst það sund ekki einu sinni erfitt. Þetta vakti mig til umhugsunar og síðan þá hef ég notið aðstoðar fagmanna og verið með sundþjálfara.
Sundtæknin mín er ekki og hefur aldrei verið falleg. Plúsinn við minn hugsunarhátt er að ég er eiginlega aldrei að keppa beint við aðra þegar ég syndi lengri sund. Það gefur mér ekkert. Ég er eingöngu að keppa við hausinn á mér og mig sjálfan og legg því ekki mikið upp úr einhverjum sætum í slíkum sundum.“
Ermasundið er Mount Everest sjósundmannsins
Sigurgeir segir hugmyndina að Ermasundi hafa kviknað árið 2022, eftir að honum hafði gengið vel í lengri sundferðum við strendur Íslands. „Ermasundið er svona Mount Everest fyrir sjósundsfólk og ég er þannig að ég vil alltaf ögra mér meira með sífellt erfiðari verkefnum. Þannig að ég sendi skeyti út og forvitnaðist um hvað ég þyrfti að gera til að taka þátt og í ljós kom að þetta er heljarinnar vesen. Það var nánast aðeins fyrir smá klíkuskap sem mér tókst að komast að nú þremur árum síðar.
Það er þaulsetið um þennan tíma ársins sem slíkt sund er mögulegt. En þetta verður erfitt og sjálfur býst ég alveg við því að þetta geti tekið mig í kringum tuttugu klukkustundir, þó heilt yfir geti fólk lokið þessu sundi á sextán til sautján klukkustundum.“
Síðasti kaflinn sá erfiðasti
Ekki einungis er sundið þrekraun mikil heldur er öll aðstoð af skornum skammti, nema eitthvað verulega alvarlegt bjáti á. „Það eru ýmsar reglur þessu tengt. Ég má til dæmis alls ekki snerta bátinn sem fylgir mér og fólk um borð þarf að gefa mér mat eða drykk með langri stöng. Það er tæknilega ekki bannað að troða marvaða og reyna að fá smá hvíld en þó ekki vel séð skilst mér.
Sjálfur er ég bjartsýnn á að þetta gangi upp ef aðstæður eru með besta móti. Eini kaflinn sem er alvarlega erfiður er þegar menn eru að nálgast strönd Frakklands, því þar eru straumarnir mun sterkari en annars staðar á leiðinni.“
Líður vel á Eskifirði
Sigurgeir hefur búið á Eskifirði í 10 ár eftir að hann flutti þangað með konu sinni Sóleyju Gísladóttur, sem er uppalin þar. Hann hefur mest allan tímann unnið hjá Alcoa Fjarðaáli og segist kunna vel við sig eystra. Hún hefur tekið þátt í sundævintýrum hans með honum, sem hann segist afar þakklátur fyrir. „Okkur líður frábærlega hér fyrir austan og hér ætlum við að vera áfram.“
Hægt verður að fylgjast með sundi Sigurgeirs á Facebook-síðu Píeta-samtakanna, eða undir merkjunum „Til hvers að sigla?“ á Instagram og Facebook. Hægt er að heita á Sigurgeir í sundinu á vef Pieta-samtakanna https://pieta.is/ermasund-styrkja/
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.