„Ég verð alveg tilbúinn þegar stóri dagurinn kemur“
Einni þolraun var vart lokið í vetur þegar sjósundsgarpurinn Sigurgeir Svanbergsson frá Eskifirði hóf undirbúning að því að yfirstíga þá næstu. Hann mun reyna sig við Ermasund um miðjan júlímánuð.
Að öðrum ólöstuðum er Sigurgeir líklega þekktasti sjósundsgarpur Austurlands enda þreytt hvert þolsundið á fætur öðru hin síðari ár. Nú síðast seint í október í vetur þegar hann ekki aðeins synti klukkustundum saman úr Reyðarfirði inn á Eskifjörð heldur gerði það með sinn betri helming í eftirdragi á kajak.
Syndir aftur til stuðnings Píeta
Í því sundi gat fólk heitið á kappann og allur ágóði af því fór beint til Píeta-samtakanna sem veita liðsinni þeim er glíma við hugsanir um sjálfsskaða eða sjálfsvíg. Sigurgeir safnar líka áheitum fyrir sömu samtökin með Ermasundi sínu en hann hefur einungis tiltekinn dagafjölda til að þreyja það sund milli Englands og Frakklands.
„Sundglugginn minn er frá 18. til 24. júlí en hvaða dagur nákvæmlega verður fyrir valinu fer eftir veðri þegar nær dregur. Undirbúningur gengur vel. Ég er í mjög góðu formi og verð alveg tilbúinn þegar stóri dagurinn kemur. Við erum enn að föndra aðeins með matargjöf og hvernig við ætlum að útfæra það en við erum komin með ansi góða hugmynd um hvernig við tæklum það. Eins og staðan er núna þá æfi ég bara í sundlaug en fer að færa það út í sjó fljótlega líka. Það sem ég er svona mest með „áhyggjur” af eru fjárhags-styrkir til mín persónulega því þetta er ansi dýrt project að gera. Ég hef fengið að nýta aðstöðuna í sundlaug Eskifjarðar og er mjög þakklátur fyrir það og ef einhver þarna úti hefur áhuga að aðstoða mig með fjármagn yrði ég þakklátur og klár í bolla og spjall.“
Verið er að undirbúa áheitasöfnun hjá Píeta-samtökunum og verður það auglýst á vef samtakanna innan tíðar.