Ozzy heiðraður á góðgerðartónleikum
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. sep 2025 12:35 • Uppfært 03. sep 2025 13:26
Tónlist Ozzy Osbourne og Black Sabbath verður tekin fyrir á árlegum góðgerðartónleikum Tónleikafélags Austurlands sem haldnir verða í Valaskjálf á laugardagskvöld. Forsvarsmaður félagsins segir að ekki hafi komið annað til greina eftir að Ozzy lést nýverið. Ágóðinn í ár rennur til Pieta-samtakanna.
„Ozzy og Black Sabbath voru arkitektarnir að þessu þungarokki sem kom þar á eftir. Þeir bjuggu til hljóðheiminn og stemminguna,“ segir Bjarni Þór Haraldsson, forsvarsmaður Tónleikafélagsins.
Það hefur frá árinu 2017 staðið árlega fyrir tónleikum, yfirleitt með þungarokki, með ungu tónlistarfólki af Austurlandi til styrktar góðgerðarmálefnum. Félagið hefur í gegnum tíðina bæði nýtt ágóðann í ráðstefnur um geðheilbrigðismál og styrkt geðheilsuteymi Heilbrigðisstofnunar Austurlands beint.
Framfaraspor að fá Pieta-samtökin á Austurland
Í ár rennur ágóðinn til Pieta-samtakanna sem vinna gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Félagið opnaði viðtalsaðstöðu, svokallað skjól, á Reyðarfirði í febrúar og þangað koma sérfræðingar þeirra mánaðarlega.
„Ástæðan fyrir því að við styrkjum Pieta er því miður bæði aðkallandi og kunn. Ástandið hefur verið þungt á Austurlandi. En það var mikið framfaraspor að Pieta-skjólið væri opnað og síðar í haust stendur til að opna geðræktarmiðstöð Austurlands,“ segir Bjarni.
Stefnan seint beint á Ozzy
Á tónleikunum hafa ýmsir tónlistarmenn og hljómsveitir verið heiðraðar en að þessu sinni er kastljósinu beint að Ozzy sem lést í júlí. „Hljómsveitin var byrjuð að æfa fyrir ACDC tónleika en þegar Ozzy dó fannst mér gráupplagt að spila hans lög. Það mæðir meira á hljómsveitinni að æfa með svona stuttum fyrirvara en ég gaf henni ekkert val og þau greyin gera alla þá vitleysu sem ég bið þau um.“
Mikið af góðum ungum hljóðfæraleikurum
Söngvararnir Dagur Sigurðsson og Stefán Jakobsson syngja á tónleikunum en að baki þeim er tólf manna hljómsveit. Hún er bæði skipuð eldri fagmönnum, svo sem tónlistarkennurum af svæðinu en líka ungum hljóðfæraleikurum af Austurlandi.
„Uppleggið hefur verið að unga fólkið eigi sviðið fyrir hlé. Við viljum að tónleikarnir séu jákvæð og uppbyggileg reynsla fyrir það og til þess þarf ákveðna hæfileika, vilja til að æfa og getu til að spila fyrir framan svona margt fólk. Við höfum átt í mjög góðu samstarfi við Tónlistarfélag Menntaskólans og formaður þess, Svandís Hafþórsdóttir sem er í hljómsveitinni, hefur gefið mörgum tækifæri sem undirbúa fólk fyrir tónleika sem þessa. Þess vegna hefur okkur gengið vel að finna fólk í ár og hljómsveitin stækkar.“
Tónleikarnir verða í Valaskjálf klukkan 20:30 á laugardag og að sögn Bjarna er útlit fyrir að margir gestir mæti. „Við erum búin að selja fleiri miða en áður á þessum tíma í forsölu. Við erum þakklát fyrir það. Við tókum ákvörðun um að hækka miðaverðið, sem okkur fannst erfið, en þetta eru enn ódýrir tónleikar miðað við flesta aðra á landsvísu því við viljum fá sem flesta gesti í húsið.“
Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á:
Píeta samtökin, s. 552-2218, Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið 1717.is, Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar, s. 1700, og netspjallið heilsuvera.is. Í neyð hringið í 112.
Varðandi stuðning eftir missi í sjálfsvígi er bent á:
Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar, s. 1700, og netspjallið heilsuvera.is, Sorgarmiðstöð, s. 551-4141, og
Frá tónleikum Tónleikafélags Austurlands í fyrra. Mynd: Ágúst Bragi Daðason