Skip to main content

Skjól Pieta-samtakanna opnað á Reyðarfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. feb 2025 14:35Uppfært 27. feb 2025 16:59

Viðtalssetur, svokallað skjól, á vegum Pieta samtakanna, sem vinna gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, var opnað á Reyðarfirði í morgun. Framkvæmdastjóri samtakanna segir bæjarstjórn Fjarðabyggðar hafa sýnt mikilvægt frumkvæði með að nálgast samtökin.


Samtökin hafa komið upp skjólum á nokkrum stöðum á landinu en Fjarðabyggð er fyrsta sveitarfélagið sem gerir formlegan samstarfssamning við þau. Ellen Calmon, framkvæmdastjóri samtakanna, hrósaði bæjarstjórn fyrir framsýni og frumkvæði við opnunina í morgun.

Ellen talaði um að mikilvægt væri fyrir samfélagið og framleiðni þess að fólki liði vel. Annars sé hætta á að það detti í vanvirkni sem aftur dregur úr framleiðni og öðru í samfélaginu.

Útbúið hefur herbergi á vegum samtakanna að Búðareyri 2, þar sem skrifstofur fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar eru. Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, sagði íbúa Fjarðabyggðar hafa lært að samtal skipti máli, hvort sem það sé við sérfræðinga eða annað fólk. Pieta samtökin væru góður samstarfsaðili í að hlúa að fólki. Ánægjulegt hefði verið að einhugur hefði verið í öllu bæjarkerfinu um samstarfið.

Eva Ólafsdóttir, félagsráðgjafi, mun sjá um viðtölin sem boðið er upp á eystra. Boðið er allt að 12 gjaldfrí samtöl, en tekið var fram að Pieta samtökin sleppa ekki hendinni af fólki fyrr en búið er að koma því í örugga meðferð hjá öðrum aðilum.

Viðtölin eru fyrir einstaklinga sem glíma við hugsanir um sjálfsskaða eða sjálfsvíg, aðstandendur þeirra og fyrir aðstandendur þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi. „Við leggjum mikla áherslu á aðstandendur. Þeir hafa ekki alltaf fengið viðeigandi stuðning,“ sagði Gunnhildur Ólafsdóttir, fagstjóri samtakanna.

Fulltrúar Pieta samtakanna fögnuðu því hversu margir voru mættir við opnuna og eins hversu miklar og langar umræður sköpuðust þar. Það væri merki um mikinn stuðning úr samfélaginu.

Hún sagði samfélagslega umræðu um sjálfsvíg mikilvæga, en hana yrði að nálgast af ábyrgð og virðingu. „Það hefur forvarnagildi að viðurkenna að vandi sé til staðar og við mætum um. Við stjórnum ekki endilega hugsunum heldur lærum að hafa stjórn á þeim.“

Meðferðaraðilar Pieta samtakanna hafa viðurkenningu til starfsemi með fullorðna einstaklinga, það er þá sem náð hafa 18 ára aldri. Aðrir meðferðaraðilar sjá um vanda yngra fólks. Bæði Ellen og Gunnhildur lögðu áherslu á að aðferðir samtakanna byggðu á aðferðum sem hefðu verið vísindalega rannsakaðar og sýnt að skiluðu árangri.