Opinn fræðslufundur um endómetríósu
Endósamtökin standa í dag fyrir opnum fræðslufundi um endómetríósu í Fellabæ í dag. Fundurinn er hluti af fræðsluferð samtakanna þar sem áherslan er á skóla svæðisins.
Endósamtökin munu í vetur heimsækja skóla á svæðinu með stuðningi Soroptimistaklúbbs Austurlands. Þess vegna munu samtökin koma austur í fleiri skipti á næstu mánuðum.
Ferðin hófst á mánudag og í þessari fyrstu törn hafa skólarnir í Brúarási, Egilstöðum, Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Verkmenntaskólinn verið heimsóttir. Fræðslan nær til efstu stiga grunnskóla og allra framhaldsskóla.
Markmiðið ferðarinnar er að auka vitund um endómetríósu og tengd málefni meðal ungmenna, foreldra og samfélagsins alls.
Í fyrirlestrunum er fjallað um hvað endómetríósa er, einkenni sjúkdómsins, áhrif hennar á daglegt líf og mikilvægi þess að greina og taka á heilsufarsvanda kvenna og ungmenna í tíma. „Markmið okkar er að rjúfa þögnina, stuðla að skilningi og valdefla ungmenni til að þekkja eigin líkama og leita sér aðstoðar þegar þörf krefur,“ segir í tilkynningu.
Auk þessa er opinn fundur í dag frá klukkan 15-17 á Bókakaffi í Fellabæ. Einstaklingar með endómetríósu eða grun um hana, foreldrar/forráðamenn og ungmenni eru sérstaklega velkomin en erindið er annars öllum opið.