Skip to main content
Sævar Jóhannsson og Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths í húsnæði StarfA. Mynd: GG

Nýta tónlist til að hjálpa fólki í starfsendurhæfingu

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. okt 2025 15:21Uppfært 08. okt 2025 15:23

Korda Samfónía er hljómsveit sett saman af fólki víða af landinu sem farið hefur í gegnum starfsendurhæfingu. Fulltrúar Korda stóðu nýverið fyrir lagasmiðju í samvinnu við Starfsendurhæfingu Austurlands (StarfA) þar sem þátttakendur nýttu sér þær aðferðir sem þróaðar hafa verið í kringum Korda og um leið sýndu sig sem hljóðfæraleikara.

Það voru þau Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths og Sævar Jóhannsson sem komu austur á vegum verkefnisins. Sigrún hefur búið í Bretlandi í 30 ár og kennt við Guildhall listaháskólann í London. 

Hún segir að í skólanum sé lögð mikil áhersla á að tónlistarfólki fari út í samfélagið og kynni list sína fyrir almenningi. Það hafi síðan þróast í samsköpun, þar sem allir sem taka þátt í að búa til listaverk vinni á jafningjagrundvelli. Það var hugmynd sem hún vildi koma með til Íslands og gerir það, í samvinnu við fleiri, undir merkjum MetamorPhonics.

Í gegnum það hafa verið settar af stað hljómsveitir á sjö stöðum á landinu í samvinnu við starfsendurhæfingar. Í þeim úrræðum er fólk sem er að koma sér aftur út á vinnumarkaðinn eftir erfiðleika.

Ekki krafist hljóðfærakunnáttu

Korda er súpergrúppa með aðsetur sitt í Reykjavík. Hún er að hálfu leyti skipuð einstaklingum úr öðrum hljómsveitum verkefnisins um landið, en hinn helmingurinn er nemendur í tónlistarfræðum við Listaháskóla Íslands. Sveitin heldur árlega tónleika í Hörpu og hefur verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Hugmyndin er sótt til Bretlands í hljómsveitina The Messengers, sem er skipuð nemendum úr Guildford og heimilislausu fólk.

Hljóðfærakunnáttu er ekki krafist áður en farið er af stað. „Í sumum tilfellum fáum við til okkar fólk sem hefur verið að spila og er frábærir hljóðfæraleikarar en í mörgum tilfellum hefur fólk aldrei snert hljóðfæri áður. Það býr samt eitthvað í fólki sem fær að blómstra,“ segir Sigrún.

Rannsaka áhrif samstarfsins

Hún segir að það sé krefjandi verkefni að leiða stóra hljómsveit fólks sem hafi ólíkan bakgrunn í tónlistinni. „Við semjum öll saman og það er ákveðin hugsun, en það er líka merkilegt hvað gerist þegar þú bætir við lífsreynslu fólks og öðru slíku.“

MetamorPhonics hefur fengið styrki til að rannsaka áhrif tónlistarsmiðjanna. Bæði hver áhrifin eru á fólkið í endurhæfingunni og á tónlistarfólið sjálft. Sigrún segir árangurinn lofa góðu, fyrirtækið sé nú að taka að sér fyrsta starfsnemann sem hafi byrjað í tónlistarsmiðju hjá starfsendurhæfingu. 

„Þetta hefur mjög mikil áhrif á listnemana. Við veltum til dæmis upp hvaða áhrif þessi reynsla hefur á þeirra starf, hvað þau kjósa að gera í framtíðinni. Nægir þeim að standa á sviði og spila fyrir efnameira fólk á sinfóníutónleikum eða er eitthvað annað gildi í þessu sem nærir þau sem listafólk. Það er mín ástríða að við eigum að gera listina aðgengilega sem flestum.“

Vinna með tónlistarskólunum

Hljómsveitunum sem verða til í kringum landið er fylgt eftir af leiðtogum MetamorPhonics. Þeir reyna að heimsækja hvern stað tvisvar á ári til að hóa þeim saman. Hljómsveitirnar taka breytingum því fólk útskrifast úr starfsendurhæfingu og nýir einstaklingar bætast við. „Þar eru alltaf einhverjir nýir meðlimir í hvert sinn sem hljómsveitin hittist en oft 1-2 til að brúa bilið. Það er gott því annars þurfum við alltaf að byrja upp á nýtt.

MetamorPhonics hefur líka átt í samstarfi við tónlistarskólana í landinu, annars vegar að fá lánuð hljóðfæri, hins vegar að halda námskeið fyrir kennara sem byggir á aðferðafræðinni um samsköpun. Ferðin austur nýttist líka til þess. „Þetta er í raun námskeið fyrir kennarana um hvernig við getum nýtt okkur sköpun í starfi.“

Ánægð með afraksturinn

Vinnusmiðjan hjá StarfA stóð í þrjá daga. Á þeim fyrsta var byrjað að vinna með hugmyndir að laglínum og textum, haldið áfram á öðrum degi og á þeim þriðja haldnir tónleikar fyrir hópinn og tekið upp.

Sigrún og Sævar segja smiðjuna hafa gengið vel. Þátttakendum var skipt upp þrjá minni hópa sem byrjuðu að vinna texta og laglínur. Lagt var af stað með þema í bæði laga- og textasmíð sem voru hugtökin „umbrot“ og „varanlegt.“ Síðan var hópunum og hugmyndunum aftur skeytt saman. „Við fengum virkilega flott lög og snilldartexta hér,“ segir Sævar.