„Nóg eftir á tankinum þegar ég þurfti að hætta sundinu“
Það var hundfúll Sigurgeir Svanbergsson sem hífði sig um borð í fylgdarbát sinn seint í fyrrakvöld þegar aðeins sex kílómetrar voru eftir til lands í Frakklandi. Hundfúll sökum þess að nóg var eftir á tankinum.
Eins og lesa má um hér þurfti eskfirski sjósundskappinn Sigurgeir Svanbergsson að hætta sundi sínu yfir Ermasundið milli Englands og Frakklands eftir fjórtán og hálfs tíma sund og aðeins sex kílómetrum frá meginlandinu. Ástæðan ekki að hann var að gefast upp heldur var það ákvörðun leiðangursstjórans um borð í bátnum sem honum fylgdi.
„Í sjálfu sér var ég lítið sáttur við þá ákvörðun þegar ég var í sjónum en eftirá gerði hann hárrétt í að kalla mig um borð. Ástæðan var mikill straumapollur á tilteknu svæði sem olli því aftur og aftur að ég færðist fjær og fjær fylgdarbátnum sama hvað ég reyndi. Ég var ítrekað kominn þetta 40 til 50 metra frá bátnum og þegar haft er í huga að þarna var niðamyrkur ákvað kafteinninn að segja þetta gott því það þarf líklega ekki að spyrja að leikslokum ef þau hefðu alveg misst sjónar af mér. Fyrst fannst mér þessi ákvörðun skrýtin því sjálfur sá ég bátinn, sem var upplýstur, öllum stundum, en þegar ég sá myndband af mér frá þeirra sjónarmiði með oggulítið blikkandi grænt ljós í myrkrinu áttaði ég mig á hve tæpt var á að þau misstu alveg sjónar af mér. Þannig að ég skil og er hundrað prósent sammála þessari ákvörðun kafteinsins en er hundfúll samt því svo stutt var eftir og ég með nóg eftir í tankinum.“
Önnur tilraun þegar í bígerð
Sigurgeir er nú, ásamt fjölskyldu sinni, á heimleið eftir að hafa beðið góðs tækifæris til að hefja sundið í heila viku í Dover í Englandi en sjálfur segir Sigurgeir að hann sé harðákveðinn í að endurtaka Ermasundið nú þegar hann sé þess fullviss um að klára það miðað við hvað hann átti mikið eftir þegar stutt var eftir til lands.
„Það er alveg pottþétt að ég reyni aftur og reyndar var kafteinninn sem fylgdi mér svo ánægður með okkur og allt að hann er þegar búinn að ákveða að vera kafteinninn minn aftur næst. Ég hugga mig við að ég var fjarri því búinn á því á leiðinni og allra mikilvægast er að söfnunin fyrir Píeta-samtökin skilst mér að hafi gengið mjög vel. Mér finnst það reyndar dálítið táknrænt að í sundinu má segja að ég hafi verið heimtur úr myrkrinu sem er gróflega það sem Píeta stendur og berst fyrir fyrir fólk sem glímir við sjálfsvígshugsanir. Þannig að ýmislegt gott kom út úr þessu þrátt fyrir allt.“