Þungir mótstraumar þvinguðu Sigurgeir Svanbergsson til að hætta Ermasundi sínu
Sigurgeir Svanbergssyni, sjósundskappa úr Eskifirði, tókst ekki að uppfylla draum sinn um að ljúka Ermasundinu en hann varð að hætta því seint í gærkvöldi sökum þungra strauma eftir rúmlega fjórtán tíma sund sem var farið til styrktar Píeta-samtökunum.
Ekki hefur tekist að ná tali af Sigurgeir sjálfum né samferðafólki hans í bátnum sem honum fylgdi allt sundið það sem af er degi sem eðlilegt er enda hóf hann sund sitt eldsnemma í gærmorgunn og var fólkið allt ekki komið til lands í Englandi að nýju fyrr en seint í nótt.
Eftir því sem næst verður komist dró mjög af Sigurgeiri þegar aðeins voru þetta fimm og tíu kílómetrar til lands í Frakklandi. Þá mættu honum þungir mótstraumar og það í annað skipti í sundinu sem það gerðist. Sigurgeir var ekki eini sundmaðurinn sem þurfti að hætta sundinu því það gerðu að minnsta kosti tveir aðrir sem voru að synda sömu leiðina á svipuðu tímabili.
Á þessu korti af sundleið Sigurgeirs má glögglega sjá að hve mjög þungir straumar geta borið menn af leið yfir Ermasundið sem er kringum 34 kílómetrar í beinni línu. Straumarnir geta ýtt sundfólki verulega langt til norðausturs um tíma eins og raunin varð hjá Sigurgeiri seint í gærkvöldi. Slíkt bætir auðveldlega tíu til fimmtán kílómetrum við vegalengdina sem synda þarf. Það í þokkabót við að lenda í marglyttuvoðu á leiðinni eins og Sigurgeir varð fyrir.
Sigurgeir í byrjun sundsins við strendur Englands í gærmorgunn. Sundið byrjaði vel en þegar á leið lenti hann tvívegis í þungum mótöldum sem höfðu mikil áhrif. Mynd Aðsend