Minnisvarði um Skarphéðin G. Þórisson á Vesturöræfum
Félagar í Rótarýklúbbi Héraðsbúa afhjúpuðu í síðasta mánuði stein á Fljótsdalsheiði sem á er skjöldur til minningar um Skarphéðin G. Þórisson, hreindýrasérfræðing.
Skarphéðinn, sem var helsti sérfræðingur landsins um hreindýrin, lést í flugslysi sumarið 2023. Tveir aðrir létust í slysinu en verið var að telja hreindýr.
Sagt er frá skildinum í greinaröð sem félagar í Rótarýklúbbnum rita í Austurgluggann þessar vikurnar í tilefni af 60 ára afmæli klúbbsins. Skarphéðinn var félagi í klúbbnum.
„Þegar rætt var í klúbbnum með hvaða hætti við félagar hans gætum sýnt minningu hans sóma, kviknaði sú hugmynd að reisa honum vörðu eða minningarstein á þeim slóðum sem honum voru kærastar.
Gerð var tillaga að minningarskildi og hugmyndin borin undir ekkju Skarphéðins og nánustu fjölskyldu, sem tók málinu vel. Þau bentu á staðinn þar sem dufti hans hafði verið dreift, á Vesturöræfum skammt frá ósi Sauðár,“ skrifar Þórhallur Pálsson fyrir hönd klúbbsins.
Klúbbfélagar fóru á staðinn, fundu hentugan stein og fengu leyfi til að setja skjöld sem þeir höfðu látið steypa á steininn. Landsvirkjun aðstoðaði við uppsetningu steinsins. Þá var hellugrjóti raðað í kringum hann.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.