Leiðréttir neikvæða ímynd Snorra Sturlusonar af jötnum
Ingunn Ásdísardóttir frá Egilsstöðum hefur lagt sig fram um að breyta neikvæðri sýn á jötna í goðasögunum sem ríkt hefur frá tímum Snorra Sturlusonar. Hún hlaut í ár Fjöruverðlaunin fyrir bók sína „Jötnar hundvísir.“
Ingunn ólst ekki upp í þorpinu á Egilsstöðum heldur á sjálfri jörðinni sem þorpið dregur nafn sitt af. „Ég bjó á Egilsstöðum að 16 ára aldri. Ég bjó líka á Hallormsstað þegar ég var krakki, móðir mín var skólastýra við húsmæðraskólann þar. En svo kom ég alltaf til baka í Egilsstaði á sumrin, alveg fram yfir þrítugt,“ segir Ingunn. Minningarnar eru ljúfar þótt veðráttan hafi stundum verið krefjandi.
„Egilsstaðir var alveg yndislegur staður til að alast upp á, alltaf dásamlegt veður á sumrin en rosalegt fannfergi oft á veturna. Það var ekkert keyrt með krakkana í skólann á þessum tíma, það var bara harkan,“ segir hún hlægjandi.
Bókmenntaáhugi og óbein leið inn í fræðin
Á æskuheimilinu var mikið lesið sem vakti bókmenntaáhuga Ingunnar snemma. Hún stundaði nám í Menntaskólanum á Akureyri og segir að námið þar hafi opnað sjóndeildarhringinn, sérstaklega þegar hún fór að lesa bækur á ensku.
„Þegar ég kom suður fór ég í bókmenntafræði, bæði enskar bókmenntir og almennar bókmenntir. Maður fór svolítið eftir félögunum og þetta rann svona einhvern farveg,“ segir hún. Leið Ingunnar var fjölbreytt og hún bendir á að ungt fólk í dag sé krafið um mun meðvitaðra náms- og starfsval en þá tíðkaðist.
Ástríðan fyrir norrænni goðafræði kviknaði að hennar sögn fyrir tilstilli tveggja manna: „Ég hugsa að það séu tveir menn sem höfðu afgerandi áhrif á það. Þegar ég hugsa til baka þá eru það annars vegar Gísli Jónsson, menntaskólakennari á Akureyri sem kenndi okkur íslensku og var mikill fornfræðingur, og hins vegar J.R.R. Tolkien. Ég las Hringadróttinssögu á menntaskólaárunum og gjörsamlega drakk hana í mig, ég veit ekki hvað ég hef lesið hana oft.“
Frá leikhúsi til þýðinga og fræðastarfa
Eftir leikstjórnarnám í Þýskalandi og nokkur ár í íslenskum leikhúsheimi þurfti Ingunn að breyta um stefnu. „Það gerist svo þegar konur eru búnar að vera í leikhúsbransanum í ár og áratugi að þær eru ekki lengur sætasta stelpan á ballinu. Þó að sú hugmynd hafi breyst mikið nú til dags, þá var þetta mikið til þarna á áttunda og níunda áratugnum. Þá færðu konur sig yfirleitt yfir í leikstjórn en á þessum tíma voru mjög fáar konur að sem höfðu eitthvað verulega mikið að gera í leikstjórn. Þetta var mikill barningur og þegar ég var komin með barn þurfti ég að finna eitthvað annað að gera,“ segir hún.
Þýðingarstörf urðu fyrsta skrefið í átt að fræðastarfinu sem hún sinnir í dag. Verkefni við þýðingu á þýsku uppflettiriti um hugtök og heiti í norrænni goðafræði kveikti áhugann aftur. Þrátt fyrir hindranir við inntöku í meistaranám í íslensku varð fundur með Terry Gunnell prófessor til þess að hún lagði fyrir sig þjóðfræði.
Ný sýn á jötna í norrænni goðafræði
Í doktorsritgerð sinni sem hún varði árið 2018, „Jötnar í blíðu og stríðu: Jötnar í fornnorrænni goðafræði. Ímynd þeirra og hlutverk“, skoðar Ingunn jötna frá öðru sjónarhorni en almennt hefur tíðkast.
„Jötnar hafa oft verið jaðarsettir í goðsögunum en þeir eru í raun lykilpersónur. Guðirnir þurfa til þeirra til að fá þekkingu og krafta til að lifa af. Ásarnir eignuðust ekki börn með sínum eigin konum. Þeir þurftu alltaf að leita til jötna og eiga börn með fögrum jötnameyjum,“ útskýrir Ingunn.
Hún gagnrýnir túlkun Snorra Sturlusonar sem hafi mótað neikvæða mynd af jötnum. „Snorri var pólitískur og skrifaði goðsögurnar út frá sínum eigin þörfum. Hann vildi varðveita dróttkvæðalistina en ekki endilega goðafræðina sjálfa,“ segir hún.
Jötnameyjar sem sterkar kvenpersónur í goðsögunum
Jötnameyjarnar vekja sérstakan áhuga Ingunnar í rannsóknum hennar. „Þær eru sterkar persónur sem hafa verið misskildar og vanmetnar í gegnum tíðina. Þær hafa átrúnaðarhlutverk, eru oft sýndar með bikar í hendi sem hluti af athöfnum með gríðarmikla þýðingu,“ segir hún og nefnir persónur eins og Gunnlöð í Hávamálum, Skaða og Hyrrokkin sem dæmi um sterkar jötnameyjar sem ekki hafa fengið nægilega athygli.
Ingunn tengir fornu goðsögurnar við nútímann, sérstaklega sambandið við náttúruna. „Við þurfum að endurheimta virðingu okkar fyrir náttúrunni og skilja að hún er ekki bara auðlind heldur lífkerfi sem við erum hluti af. Með því að endurvekja skilning okkar á þessum tengslum getum við lært að lifa í betri sátt við umhverfið og okkur sjálf, við megum ekki bara malbika hana til helvítis,“ segir Ingunn.
Tvenn Fjöruverðlaun
Ingunn hefur fengið Fjöruverðlaunin tvisvar, fyrst árið 2008 fyrir bókina „Frigg og Freyja: Kvenleg goðmögn í heiðnum sið“ og nú í ár fyrir nýjustu bók sína „Jötnar hundvísir“. Um nýjustu bókina segir hún: „Nýja bókin kom út á íslensku. Hún er allt annað verk en doktorsritgerðin, hún er töluvert aðgengilegri. Viðbrögðin sem ég hef fengið frá henni hafa verið alveg æðisleg.“
Viðtalið er hluti af samstarfsverkefni Austurgluggans, Víkurfrétta og Skessuhorns, við nám í blaðamennsku við Háskóla Íslands.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum.