Skip to main content

Yngst á handverksmarkaðinum á Stöðvarfirði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. jún 2025 16:20Uppfært 11. jún 2025 16:22

Þótt að það að prjóna og sauma séu ekki óvenjuleg áhugamál á Íslandi, er Ingibjörg Ómarsdóttir, ungur kennari á Stöðvarfirði, sönnun þess að þau séu ekki eingöngu ætluð eldri kynslóðinni. Ingibjörg er núna að vinna að meistararitgerð sinni við menntavísindasvið, kennir í grunnskóla á daginn og í frítíma sínum saumar, prjónar og heklar hún.


Jafnvel þegar hún var í skóla, fékk hún spurningar eins og „af hverju ertu að prjóna?" Þetta var iðja ætluð ömmum, ekki ungum stúlkum.

Hins vegar hefur margt breyst með tilkomu samfélagsmiðla. Skyndilega gat fólk séð jafnaldra sína stunda sama áhugamál hinum megin á hnettinum, sem sannaði að ekkert óvenjulegt væri við það. Auk þess fóru þau að skiptast á hugmyndum og þekkingu. Og þannig komst handverk aftur í tísku.

„Fólk er mikið opnara fyrir þessu núna. Það eru minni fordómar. Þetta er ekki eitthvað sem bara gamalt fólk gerir. Þetta á við um allar tegundir handverks, það er orðið vinsælla," segir Ingibjörg, sem hefur verið skapandi síðan í æsku.

Fjölnota ferðapúði


Vinsælasta varan hennar í dag er ferðapúði. Þótt hann sé ekki fullkomlega hennar eigin hönnum, hefur hún bætt við hann eigin hugmyndum. Hann er fullkominn sem höfuðpúði í bílnum, sem og fyrir stofuna eða svefnherbergið. Fólk notar hann aðallega til að styðja við handleggi, bak eða höfuð.

Ingibjörg, sem lærði að sauma 19 ára, getur saumað þrjá slíka púða á klukkutíma. Þeir koma í ýmsum litum, eru fylltir með pólýester fyllingu og má þvo í vél. „Ég nota hann þegar ég er að keyra, á milli bílhurðarinnar og mín, hvíli olnbogann á honum. Hann styður líka við neðri hluta baksins þegar ég sit í stól, þvingar mig til að sitja rétt. Hann er fjölnota," útskýrir hún.

Yngst á handverksmarkaðinum


Hún lærði grunnatriðin við að prjóna í grunnskóla og byrjaði af alvöru 16 ára gömul. Hún lærði ekki af móður sinni, sem ástundar ekkert af því handverki sem Ingibjörg hefur lagt sig eftir. Amma hennar kenndi henni þegar hún var að byrja, en fljótlega varð Ingibjörg færari.

Hún selur vörur sínar á jólamörkuðunum en líka handverksmarkaðinum á Stöðvarfirði, sem er á meðal þeirra stærstu á landinu og er opinn frá maí fram í september. Hún er yngst allra sem selja þar, en það hefur aldrei truflað hana.

„Ég hef verið yngst í hópnum í dálítinn tíma, ég byrjaði að selja með þeim þegar ég var 20 ára. Fólkið var svo hissa að ég væri tvítug á meðal allra þessara eldri kvenna. Þær hafa hrósað mér mikið síðan ég fór af stað. Ég held ég sé svolítið gömul sál," segir hún og hlær.

Alltaf verið skapandi


Ingibjörg hefur alltaf haft gaman af að tjá sig. Jafnvel foreldrar hennar, sem hún sýndi stöðugt nýjar hugmyndir sínar, báru kennsl á þessa ástríðu snemma.

„Ég hef alltaf verið svona. Ég hef málað veggmyndir með Disney-persónum og ég gerði eina fyrir herbergi systur minnar. Ég var bara 13 eða 14 ára. Ég hef alltaf verið að gera eitthvað. Ég hef alltaf verið handlagin. Ég forðast ekki að prófa eitthvað nýtt. Ég hef prófað mósaík, ég hef brætt gler. Ég hef málað á ýmsa hluti og núna er ég að gera tilraunir með að búa eitthvað til úr kuðungum. Ég læt ekki neitt stoppa mig. Stundum gerist ekkert, en stundum gerist eitthvað," brosir hún.

Ingibjörg með einn ferðapúðann í fanginu. Mynd: Marko Umicevic

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.