Skip to main content

Óttast að innbúið sé illa farið eftir rakaskemmdir - Myndir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. feb 2025 19:21Uppfært 07. feb 2025 19:32

Nýuppgert íbúðarhús á Stöðvarfirði er illa farið eftir ofsaveðrið í gær. Leyfi fékkst frá tryggingafélagi í dag til að byrja að rífa út úr því.


Þakplöturnar fóru af húsinu við Skólabraut 12 aðfaranótt fimmtudags sem og klæðning. Þar með var húsið orðið berskjaldað fyrir veðurhamnum. Á það reyndi þegar fór að rigna hraustlega í gærmorgunn.

Ingibjörg Ómarsdóttir býr þar með manni sínum, Guðgeiri Fannari Margeirssyni og fjögurra ára gömlu barni. Hún segir húsið hafa skolfið þegar þakið fór af.

Guðgeir er í slökkviliði staðarins sem sinnti fokverkefnum víða um bæinn. Því stóð hún í ströngu í gærdag þegar leka tók úr loftinu. „Ég stóð hérna frá 12-18 ásamt vinkonu minni við að ausa,“ segir hún.

Hún lýsir því hvernig stórar fötur sem þær voru með fylltust á um hálftíma fresti. Ein sú stærsta stóð undir háfnum í eldhúsinu. Úr honum rann vatnið í stríðum straumum.

Ingibjörg og Guðgeir hafa verið að gera upp húsið. Í janúar unnu þau í stofunni. Plata féll ofan úr loftinu þar í gær.

Þau töluðu í dag við tryggingafélag sitt. Fulltrúar þess koma ekki strax en gáfu leyfi til að henda út því sem er sannarlega ónýtt í gegnum myndsamtal. Í kjölfarið var hafist handa við að rífa niður úr loftinu og parket af stofunni.

Ingibjörg segist óttast um innbú þeirra. Afar rakt hafi verið í íbúðinni í gær þar sem ekki var hægt að opna neina glugga og fúkkalykt jafnvel komin í muni sem voru ofan í skúffum.

Fjölskyldan er flutt úr húsinu í bili og fengið inni í öðru sem aðeins er notað hluta úr ári.

[widgetkit id="366" name="20250207: Skemmdir á Skólabraut 13, Stöðvarfirði"]