Skip to main content
Þorri með frumútgáfu Krókhanskans. Mynd: Aðsend

Hannaði sérstakan hanska til að vernda föður sinn á sjó

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. okt 2025 17:37Uppfært 22. okt 2025 19:10

Þorri Pálmason á Djúpavogi fékk nýverið viðurkenningu í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna og sérstakan forvarnabikar keppninnar fyrir hanska til að vernda línuveiðisjómenn fyrir því að fá krókana í hendurnar.

Aðspurður um hvernig hugmyndin að hanskanum hafi komið til svarar Þorri að hún hafi kviknað af áhyggjum af föður sínum og öðrum sjómönnum á línubátum en faðir hans, Pálmi Fannar Smárason, rær út á línubát.

Nútímalegar handfærarúllur vinna svo hratt að ef menn missa einbeitinguna í augnablik getur illa farið og slæm slys á höndum eru á meðal flóknustu aðgerða sem skurðlæknar þurfa að takast á við. Það stafar af fjölmörgum smáum beinum í höndum, auk liða, vöðva, æða og tauga sem gnótt er af.

„Mamma og pabbi tala mikið saman þegar hann er á sjó og í eitt skipti heyrði ég að pabbi hafi fengið krók í höndina og sá mynd í kjölfarið þar sem krókurinn hafði farið í gegnum alla höndina og það fannst mér ógeðslegt. 

Svo nokkrum dögum síðar fór kennarinn minn, Anna Czesko, að tala um þessa Nýsköpunarkeppni og mér datt þá strax í hug hvort ekki væri hægt að útbúa einhvers konar hanska sem gæti komið í veg fyrir að línubátasjómenn fái þessa króka í hendurnar, því það þýðir vinnutap og hugsanlega alvarlegar afleiðingar til lengri tíma,” segir Þorri.

Krókhanski

Hanskann sinn kallar Þorri Krókhanska, með vísan í veiðar með krókum. „Þetta er í raun bara hanski sem er með lófavernd því það er þar sem krókarnir fara oftast beint í gegn. Þetta er hanski með beygjanlegu járnvírneti sem þekur allan lófann svo krókar komast ekki í gegn. Hanskinn er þess vegna sveigjanlegur og þægilegur að vinna með, því þótt járnþræðirnir séu margir eru þeir smáir og hefta ekki vinnu.“

Framtakssemi til lista lögð

Hugmyndaflug og framtakssemi Þorra er ekki bundin við að finna lausnir við hættum sem steðja að sjómönnum. Eftir að hafa tekið eftir því hve hugfangnir margir gestir, af skemmtiferðaskipum sem í land koma á Djúpavogi, voru af hinum ýmsu fallegu, óvenjulegu og litríku steinum sem prýða fjörurnar í kring, datt honum í hug að prófa að mála steina og selja ferðafólkinu beint.

„Mér datt bara í hug að prófa að mála nokkra steina í fyrrasumar og kanna áhugann og það gekk svo vel að ég gerði þetta aftur nú í sumar og það gekk aftur bara mjög vel. Þannig að þessu held ég áreiðanlega áfram því þetta er gaman og ég hitti fullt af áhugasömum ferðamönnum.“

Lengri útgáfa greinarinnar birtist áður í Austurglugganum