Forsetinn í Fljótsdal: Hér býr fólk augljóslega í samfélagi – Myndir
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. ágú 2025 17:09 • Uppfært 15. ágú 2025 17:14
Halla Tómasdóttir, forseti, heimsótti Fljótsdalshrepp á þriðjudag. Aðaltilgangur heimsóknarinnar var að taka fyrstu skóflustunguna að þéttbýliskjarna í landi Hamborgar. Forsetinn notaði hins vegar daginn í heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir með áherslu á nýsköpun.
Halla hóf daginn í nýju þjónustuhúsi við Hengifoss þar sem farið var yfir þær framkvæmdir sem unnar hafa verið á svæðinu og hver framtíðarsýn svæðisins er sem ferðamannastaðar. Þar var einnig komið við í matarvagninum sem Sauðagull rekur, en fyrirtækið er hvað þekktast fyrir vörur úr sauðamjólk.
Næsti viðkomustaður var Snæfellsstofa þar sem austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs var kynnt. Þaðan var haldið í Skógarafurðir sem er fyrsta sérhæfða timburvinnslufyrirtæki landsins. Hádegisverður var svo í Fljótsdalsgrund.
Að lokinni athöfninni í Hamborg var stuttlega komið við í Valþjófsstaðakirkju en þaðan haldið inn í Fljótsdalsstöð og farið í vélasalinn inni í fjallinu. Í kjölfarið var keyrt inn í Óbyggðasetrið og sýning þess skoðuð.
Skriðuklaustur var síðasti áfangastaðurinn en forsetinn fékk þar meðal annars kynningu á hvernig ný tækni eins og viðbótarveruleiki er nýttur til að miðla menningararfinum. Helgi Gíslason, sveitarstjóri, afhenti forsetanum þar að gjöf Fljótsdælu, þar sem saga sveitarinnar og aðrar upplýsingar eru skrásettar.
Hugsað stórt í litlu sveitarfélagi
„Það sem ég tek með mér heim úr þessari ferð er að það er magnað hversu stórt er hugsað í sveitarfélagi með aðeins 111 íbúa. Það er einhver einstakur kraftur hér í Fljótsdal sem brýst út með margvíslegum og fjölbreyttum hætti. Það kom mér skemmtilega á óvart.
Við getum nefnt skipulagið í Hamborg. Ég veit ekki hvort það sé annað dæmi þar sem strax er skipulagt með svona mikilli hugmyndafræði. Þetta eru 26 íbúðaeiningar í 111 manna sveitarfélagi. Hver væri talan ef við yfirfærðum það á aðra staði? Ég er hrifin af frumkvöðlakraftinum og nýsköpuninni.
Um fámennar sveitir og byggðarlög heyrist oftar umræðan um að fólk sé að flytja í burtu og skort á atvinnutækifærum. Hér er verið að flytja inn vinnuafl til að halda öllu í gangi. Hingað flytur fólk, bæði af höfuðborgarsvæðinu og erlendis frá, sem vill ekki fara til baka.
Ný fyrirtæki sem hugsa stórt, eins og það sem ætlar að byggja fyrsta íbúðarhúsið alfarið úr íslensku timbri, eða eina fyrirtækið sem ég hef heyrt um sem vinnur vörur úr sauðamjólk. Ferðaþjónusta sem hugsar um okkar menningararf á skapandi máta,“ sagði Halla í lok dags.
Lærði að vinna á Austurlandi
Í gegnum daginn nefndi Halla nokkrum sinnum fyrri tengsl sín við Fljótsdal. Hún dvaldist þar tvisvar í sumarbústað að bænum Litlu-Grund með fjölskyldu sinni upp úr aldamótum og sagði börnin sín hafa lært að renna fyrir fisk í Bessastaðaá.
„Þó ég sé alin upp í Reykjavík þá hef ég alltaf kunnað vel við Austurland. Ég var 13 ára gömul eitt sumar í fiski í Neskaupstað og 16 ára á Djúpavogi þar sem ég bjó á verbúð. Ég hef stundum sagt að ég hafi lært að vinna fyrir austan. Dugnaðurinn í fólkinu hér er óumdeildur og því er ég ekki hissa á kraftinum, en það er líka gaman að sjá dæmi um fólk sem leyfir sér að hugsa stórt og nýta eigin kraft til að byggja sveitarfélagið sitt upp með þeim hætti sem hér er gert.“
Hrifin af kraftinum í konunum
Höllu varð í gegnum daginn einnig tíðrætt um kraft kvenna. „Ég kom í Egilsstaði fyrir nokkrum árum í tengslum við viðburð sem konur hér skipulögðu og fjallaði um að virkja frumkvöðla- og forystukraft kvenna. Þetta er áhugamál sem ég hef haft lengi og unnið að, svo sem með stofnun ýmiss konar tengslaneta og stuðnings við nýsköpun.
Það hefur verið gaman að hitta svona margar öflugar konur hér, til dæmis innflytjenda sem talar fullkomna íslensku og er búin að búa til fyrirtæki sem gengur vel við að fullvinna íslenska landbúnaðarvöru á máta sem enginn Íslendingur hefur mér vitanlega gert. Ég hrósa konum og stúlkum gjarnan fyrir frumkvæði því samfélagið verður betra þar sem það nýtur krafta kvenna, því við þurfum krafta bæði karla og kvenna.“
Fólkið tilheyrir samfélagi
Að lokum nefndi Halla samheldni samfélagsins sem atriði sem hægt sé að læra af úr Fljótsdal. „Lærdómurinn sem ég finn fyrir og á eftir að hugsa meira um er að hér býr fólk augljóslega í samfélagi. Ég hef heyrt margar sögur í dag um hvernig samfélagið hefur tekið utan um fólk sem hefur komið hingað án þess að eiga hér rætur, hefur komið aftur heim eða erlent fólk sem flytur hingað. Allir nefna einhverjar sögur um hversu gott sé að tilheyra þessu samfélagi.
Ég held að það sé merki um eitthvað sem ég hef talað um. Á tímum sítengingar hefur átt sér stað eitthvert tengslarof. Við höfum misst tengslin við okkur sjálf, hvort annað, náttúruna og einhvern tilgang með lífinu. Hér sé ég svo mörg dæmi um fólk sem lýsir því að það tilheyri samfélagi.
Meira að segja Hamborg er hönnuð sem samfélag, þar sem þú getur haft dýr og verið með ræktun, þar sem húsin eru í hring. Það er einhver hugsun á bak við þetta sem hægt er að kalla samfélag. Þess vegna er sterkasta tilfinningin sem ég fer með héðan fyrir samfélagi sem virkjar allt sitt fólk til sköpunar í þágu samfélagsins. Það er stærsti styrkur samfélags að gera það.“
[widgetkit id="379" name="20250812: Forsetinn í Fljótsdal"]