Skip to main content

Forsetinn tók fyrstu skóflustunguna að Hamborg - Myndir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. ágú 2025 12:27Uppfært 13. ágú 2025 12:28

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, tók í gær fyrstu skóflustunguna að fyrsta húsinu sem rís í landi Hamborgar þar sem Fljótsdalshreppur hefur skipulagt nýjan þéttbýliskjarna. Í fyrsta áfanga eru skipulagt svæði fyrir 26 byggingar á svæðinu.


„Það er mér virkilega mikil ánægja að vera með ykkur í dag til að samfagna þessum nýjasta byggðakjarna landsins. Ég heimsótti nokkra frumkvöðla svæðisins og hef fræðst um hvernig þau hafa látið hugmyndir sínar verða að veruleika. Það er greinilegt hér að býr og starfar stórhuga fólk.

Á tímum þar sem mikið er rætt um fækkun fólks og starfa á landsbyggðinni er einkar ánægjulegt að sjá samfélög sem horfa til framtíðar og sjá möguleika í breytingum og framþróun. Samfélög sem vilja styðja við sjálfbæra uppbyggingu og horfa um leið til ólíkra þarfa íbúanna með því að bjóða upp á góða og fjölbreytta búsetukosti.

Það sem við munum sjá rísa hér er til marks um þróun sem sést hefur víða. Æ fleiri vilja búa fjarri skarkala þéttbýlisins og njóta náttúrufegurðar en vera þó í seilingarfjarlægð frá fjölbreyttum atvinnutækifærum og þjónustu.

Víða spretta upp byggðir nærri þjónustukjörnum, en þeir eru færri staðirnir þar sem samfélagið sjálft hefur þróað með jafn markvissum hætti í skipulagi, hugmyndafræði og hönnun,“ sagði Halla Tómasdóttir, forseti í ávarpi sínu í gær.

Hamborg í eyði í tæp 70 ár


Hugmyndir að þéttbýli í Fljótsdal fóru af stað árið 2019 með íbúaþingi sem jafnframt markaði upphaf byggðaþróunarverkefnis í sveitinni. Stjórnendur nýrra fyrirtækja í dalnum bentu á að húsnæði vantaði til að hýsa starfsfólk sem vildi setjast að nærri vinnustaðnum.

Greindir voru valkostir fyrir heppilega staðsetningu. Að lokum varð samkomulag um að leigja 20 hektara úr landi Hamborgar undir íbúabyggð. Hamborg var stofnuð út úr landi Bessastaða, sem þá var í eigu Skriðuklausturs, á 16. öld og umrætt land stendur við Bessastaðaá en hinu megin hennar er Melarétt og Skriðuklaustur. Í Hamborg var byggt annað elsta steinhús Fljótsdals árið 1912. Jörðin fór í eyði 1958 og þær byggingar sem eftir stóðu voru jafnaðar við jörðu um síðustu aldamót.

Nafnið hefur vakið athygli þar sem í dag tengja flest það við Hamborg, næst fjölmennustu borg Þýskalands með tæpar tvær milljónir íbúa. Í ávarpi sínu kom Jóhann F. Þórhallsson, starfandi oddviti, inn á að bæjarnafnið ylli heilabrotum. Ekki væri þar klettaborg og engar heimildir um fjárborg, þótt hún kynni að hafa verið við Bessastaðaárgilið. Til eru stakar heimildir um bæði Handborg og Hauðurborg.

Fyrsta húsið alfarið úr íslenskum við


Húsið sem byrjað var að grafa fyrir í gær verður í eigu Steinunnar Ingimarsdóttur frá Eyrarlandi, sem er neðan þjóðvegarins á móti Bessastöðum. Hún var vant við látin í gær en Þorvarður, bróðir hennar, tók þátt í athöfninni fyrir hennar hönd. Húsið stendur við hringtorg innst á svæðinu en innblástur að því er meðal annars sóttur í Melarétt.

Fleiri einstaklingar hafa sýnt áhuga á lóðum og hefur Fljótsdalshreppur tilkynnt að opið sé fyrir umsóknir. Í fyrsta áfanga hafa verið skipulagðar 26 lóðir. Gert er ráð fyrir að dýrahald verði leyft á svæðinu. Hreppurinn sjálfur áformar að byggja hús á svæðinu. Annars vegar í eigin nafni og verður það fyrsta húsið alfarið byggt úr íslenskum við, en samið hefur verið við fyrirtæki í Fljótsdal, Skógarafurðir, um að vinna timbur af svæðinu. Sveitarfélagið á einnig í viðræðum við opinber húsnæðisfélög um að taka þátt í verkefninu. Þess vegna er vonast eftir að byrjað verði á fleiri húsum á næstu mánuðum.

Engin náttúruógn í Hamborg


„Það er stundum sagt að stysta leiðin á milli tveggja punkta sé bein lína. En þegar ákveðið er að byggja þéttbýli í sveit á Íslandi kemur fljótt í ljós að það er alls ekki bein lína þar á milli,“ sagði Bogi Kárason, verkefnisstjóri.

Hann sagði að í fyrsta lagi væri leyfisveitingarferlið flókið en Fljótsdalshreppur hefði lagt sig fram um að standa rétt að hlutunum. Strax við upphaf framkvæmda hefðu komið í ljós nýjar áskoranir. Lengra var niður á fast á hluta svæðisins en talið var og talsvert fannst af fornum minjum sem þurfti að skrá.

En Bogi ræddi líka í ávarpi sínu kostina við að byrja uppbyggingu þéttbýlis með hreint blað. „Fljótsdælingar hafa tekið þá djörfu og meðvituðu ákvörðun að byggja upp nýtt þéttbýli frá grunni og eiga skilið fyrir það bæði hrós og viðurkenningu. Kosturinn við að velja staðsetningu með yfirvegaðri hugsun í stað sjálfsprottinna byggðagjarna er að hægt er að taka tillit til allra umhverfisþátta sem kunna að hafa neikvæð áhrif á byggðir og lífsgæði íbúa.

Í Hamborg er öryggi. Það verður ekki séð að snjóflóð, aurskriður eða aðrar utanaðkomandi ógnir geti haft áhrif. Uppbygging innviða mætir kröfum nútíma samfélags. Möguleikar til stækkunar eru fyrir hendi. Í aðalskipulagi sveitarfélagsins er einnig gert ráð fyrir verslun og þjónustu á þessu svæði.“

Loftmyndir: Unnar Erlingsson og Hjalti Stefánsson

[widgetkit id="377" name="20250812: Fyrsta skóflustungan að Hamborg"]