Skip to main content

„Fannst ég þurfa að gera eitthvað gott úr ömurlegum aðstæðum“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. ágú 2025 10:50Uppfært 20. ágú 2025 10:55

Hafdís Þóra Ragnarsdóttir í Neskaupstað hleypur á laugardag hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu og safnar um leið áheitum til styrktar Pieta-samtökin. Hafdís Þóra hleypur í minningu Steingríms Fossbergs, sem féll fyrir eigin hendi í september í fyrra.


„Steini var besti vinur minn, við vorum æskuvinir frá Eskifirði. Þegar fólk deyr á þennan hátt situr eftir furðuleg tilfinning og sorg. Við hin sitjum eftir með spurningar, þögn og söknuð sem engin orð ná utan um.

Mér fannst ég þurfa að gera eitthvað gott úr ömurlegum aðstæðum og halda minningu hans á lofti en um leið skapa von. Sorgin birtist á óútreiknanlegan hátt og það er engin leið til að syrgja rétt en það er alltaf rétt leið til að styðja,“ segir Hafdís Þóra.

Skiptir máli að hafa athvarf á Austurlandi


Hún hleypur til styrktar Pieta-samtökunum sem styðja við einstaklinga með hugsanir um sjálfsvíg eða sjálfsskaða og aðstandendur þeirra. „Ég vildi vekja athygli á þessu málefni. Pieta-samtökin veita góða fræðslu.“

Pieta-samtökin opnuðu í vor skjól á Reyðarfirði. Ráðgjafi þeirra er þar með reglulega viðveru. „Ég held að tilkoma þess skipti miklu máli í því að fólk leiti að þjónustunni og nýti sér hana. Þegar ég sá að það ætti að opna athvarfið hugsaði ég strax að þetta væri eitthvað sem við vildum halda í því ég held að þörfin sé mikil.“

Hleypur það sem upp á vantar á hugarfarinu


Hafdís lýsir sér sem skemmtiskokkara og hefur því tekið skref fram á við með að skrá sig í hálft maraþon. „Ég hef verið að æfa fyrir þetta markmið síðan í mars. Ég hef lengst hlaupið 18 km í sumar. Ég býst við að fara það sem upp á vantar á hugarfarinu.“

Hafdís Þóra setti í upphafi markið á að safna 250 þúsund krónum. Hún hefur þegar náð því, er komin í tæpar 460.000 krónur og er meðal þeirra 25 hlaupara sem safnað hafa mestu til þessa. „Ég er afar þakklát öllum þeim sem hafa lagt þessu verkefni lið. Þetta hefur komið mér mjög á óvart. Þetta skiptir mig miklu máli.“

Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Pieta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið á heilsuvera.is og á Pieta símann s.552-2218.