Skip to main content

Enginn skortur á sjálfboðaliðum á Eskifirði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. sep 2025 15:28Uppfært 18. sep 2025 15:31

Um töluvert skeið hefur þótt óvenjulega erfitt að fá sjálfboðaliða til að sinna ýmsum samfélagslega mikilvægum verkefnum félagasamtaka eða björgunarsveita. Það ekki vandamál á Eskifirði því frábær mæting var á nýliðakvöld björgunarsveitarinnar Brimrúnar fyrir þremur vikum síðan.

Hvort sem það er Rauði kross Íslands, Íþróttasamband Íslands eða mikilvægar björgunarsveitir landsins hefur það sama verið upp á teningnum hjá þeim mörgum síðustu árin; sífellt erfiðara reynist að freista fólks til að taka þátt í ólaunuðum, og á köflum vanþakklátum, störfum samhliða fullri vinnu, menntagöngu, fjölskylduskuldbindingum og af ýmsum öðrum ástæðum.

Vandamálið ekki einskorðað við Ísland því hið sama hefur verið uppi á teningnum víða erlendis mörg undanfarin ár hvort sem litið er vestur um haf eða austur. Ástæðurnar jafn margbreytilegar og fólkið er margt en sérstaklega hefur yngra fólk minna sýnt því áhuga að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi.

Fullt af ungu fólki

Ofangreint ekki vandamál hjá björgunarsveitinni á Eskifirði samkvæmt formanni sveitarinnar Kristófer Mána Gunnarssyni.

„Nýliðakvöldið okkar um daginn gekk nánast framar vonum og fullt af fólki sýndu þessu áhuga og þar ekki síst unga fólkið svo við erum ansi vel sett hvað framtíðina varðar. Allmargir af þeim eru þegar búnir að fara eða eru að fara á námskeið og það eru komnir á skrá fullt af sjálfboðaliðum sem mikinn áhuga hafa á starfinu. Meira að segja í unglingaflokki eru mikið að gerast og við nú þegar með átta staðfesta unglinga sem ætla sér að taka þátt í starfinu til framtíðar. Þannig að við hér kvörtum ekki hvað þetta varðar.“

Enn safnað fyrir nýjum björgunarbát

Eins og Austurfrétt hefur áður greint frá hafa liðsmenn Brimrúnar verið að safna fé fyrir nýjum björgunarbát í tæplega hálft ár en núverandi björgunarbátur er kominn til ára sinna og þörf á nýjum, betri báti með tilliti til stóraukinnar skipaumferðar bæði í Eskifirði og Reyðarfirði.

„Það verður reyndar að viðurkennast að söfnunin gengur ekki nógu vel og enn vantar töluvert upp á að við náum markmiðinu að safna fyrir og kaupa nýjan björgunarbát. Við sáum fyrir okkur að kaupa nýja bátinn fyrir sextugsafmæli sveitarinnar á næsta ári en það markmið er enn nokkuð fjarlægt og lítið safnast. Við gefumst þó ekkert upp og höldum áfram að reyna. Þörfin á nýjum bát er orðin ansi brýn.“

Unga fólkið á Eskifirði óhrætt að prófa nýja hluti og þar á meðal að kynna sér sjálfboðaliðastörf hjá björgunarsveit staðarins. Mynd Brimrún