Kippur í söfnun fyrir nýjum björgunarbát Esk- og Reyðfirðinga með góðu framlagi Alcoa Fjarðaáls
Björgunarsveitinni Brimrúnu á Eskifirði barst góður stuðningur frá Alcoa Fjarðaáli nýverið í söfnun fyrir nýjum björgunarbát sem vonir standa til að taka í notkun á sextugsafmæli sveitarinnar á næsta ári.
Það var í byrjun marsmánaðar sem Brimrúnarmenn hleyptu söfnun sinni af stokkunum og ástæðan fyrir því bæði að stórafmæli sveitarinnar er á næsta ári en ekki síður sökum þess að núverandi björgunarbátur sveitarinnar, sem sinnir bæði Eskifirði og Reyðarfirði, er 35 ára gamall, barn síns tíma og brýnt orðið að endurnýja. Ekki hvað síst í ljósi þess að skipaumferð í fjörðunum báðum hefur aukist mikið á síðustu árum.
Kristófer Máni Gunnarsson, formaður Brimrúnar, segir viðbrögðin við söfnuninni hingað til hafa verið helst til lítil og mun minni en menn vonuðu þegar söfnunin hófst. Hann fagnaði því mjög rausnarlegu framlagi Alcoa Fjarðaáls um daginn sem hann vonar að ýti undir að fleiri aðilar sýni áhuga að styrkja átakið fyrir nýjum bát.
„Þetta hefur farið töluvert hægar af stað en við vorum að vona en þetta framlag er sannarlega að koma sér vel. Önnur fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélagið hafa sýnt góðan lit líka en meira þarf til og við erum að vona að fleiri geti séð sér fært að aðstoða okkur í þessari söfnun.“
Ástæðan fyrir að söfnunin þarf að ganga vel hangir ekki aðeins á því að 2026 er afmælisár Brimrúnar heldur ekki síður sökum þess að það er þegar til staðar munnlegt samkomulag við björgunarsveitina Ársæl í Reykjavík um kaup á þeirra báti í stað núverandi björgunarbáts. Sá er nýlegur með allri helstu tækni sem nú er til staðar til leitar og björgunar meðan Alfreð Guðnason, núverandi bátur Brimrúnar, sé það gamall að hann dugi vart lengur til svo vel megi við una og tryggja öryggi sjófarenda í Austfjörðunum.
Mikilvægi björgunarsveita landsins verður aldrei ofmetið en þær reiða sig allar á framlög frá almenningi og fyrirtækjum til að sinna sinni bráðnauðsynlegu þjónustu. Mynd Brimrún