Austfirskt hugvit sparar verkalýðshreyfingunni tugi milljóna króna
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. júl 2025 15:45 • Uppfært 17. júl 2025 15:47
Dæmi eru um að verkalýðsfélög hafi sparað sér tugi milljóna í kostnað eftir að hafa innleitt félagakerfið Tótal. Kerfið varð til í samvinnu AFLs Starfsgreinafélags og Austurnets, hugbúnaðarfélags á Egilsstöðum.
Samvinna AFLs og Austurnets hófst árið 2007 þegar Austurnet þróaði áfram skjalastjórnunarkerfi AFLs. Um svipað leyti fóru félagar að gera kröfur um að geta bókað orlofsíbúðir sjálfir.
Árið 2011 fór AFL að kanna þau orlofskerfi sem í boði voru en úrvalið var takmarkað og það sem kom helst til greina var of dýrt. Óskað var eftir að Austurnet gerði tilboð í sérsniðið kerfi, sem það gerði og á þeim forsendum tókust samningar.
„Þetta var vissulega nokkuð stórt verkefni fyrir okkur, en við mátum það vel framkvæmanlegt,” segir Garðar Valur Hallfreðsson, einn aðalforritara kerfisins frá byrjun. Á meðan þróuninni stóð setti AFL fram ýmsar óskir um getu kerfisins sem varð til þess að hálfgert bókhaldskerfi var skrifað inn í það.
„Þetta var mikill lærdómsferill fyrir okkur öll. Varðandi hugbúnaðarþróun töluðum við ekki sama tungumál og starfsfólk félagsins. Við urðum að læra að skilja hvað þau voru að tala um og þau að læra að skilja hvað við vorum að tala um, en þetta var skemmtilegt verkefni og við lærðum að vinna saman,” segir Garðar Valur.
Sverrir segir að sú vegferð sem lagt var af stað í árið 2011 hafi staðist. „Það er ekki oft sem áætlanir í hugbúnaðargerð standast bæði hvað varðar tíma og kostnað en orlofskerfið fór í loftið fyrir innan við 30 milljónir króna og um það bil á þeim tíma sem við höfðum áætlað, í apríl 2013.” Síðan hefur þróun kerfisins haldið áfram og það verið mikið endurbætt.
Þýðir ekki að senda alla peninga af svæðinu
Þetta varð til þess að þreifingar hófust um að skrifa heilt félagakerfi sem tæki á móti skilagreinum, héldi utan um dagpeninga og styrki, skeyti og fleira. Garðar segir að Austurnetsfólki hafi fundist hugmyndirnar yfirþyrmandi í fyrstu.
„Við vorum þarna nokkrir forritarar á Austurlandi og verkalýðsfélagið vildi fá heilt félagakerfi. Við vorum að pæla: „Hvað erum við að vilja upp á dekk? En félagið virtist treysta okkur – og það hafði áhrif,” segir Garðar.
Sverrir segir það hafa verið ákveðið prinsippmál að gefa Austurneti tækifærið. „Okkur datt eiginlega ekkert annað í hug. Það þýðir ekkert að tala í ræðum um að treysta á atvinnulífið á svæðinu en senda svo alla peninga suður eða erlendis. Orlofskerfið virkaði vel og þótt að það sem við værum þarna að biðja um væri miklu stærra kerfi var það að okkar mati ekkert flóknara – en við erum bara leikmenn!” – segir Sverrir og hlær. „Við vísuðum tæknilegu pælingunum bara til þeirra.”
Yfir tuttugu félög
Austurnet skilaði sinni vinnu vel og síðan hefur þróunin haldið stöðugt áfram. Árið 2021 óskaði Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði eftir að fá að taka upp kerfið og þá þurfti að gera nokkrar breytingar þannig kerfið hentaði fleiri félögum.
Félögin hafa síðan bæst við eitt af öðru. Árið 2022 kom Efling, eitt stærsta félag landsins í hópinn. Eining-Iðja í Eyjafirði er eitt nýjasta félagið. Alls eru yfir 20 félög annað hvort komin inn í Tótal eða að taka það upp. Kerfið er í eigu félaganna og utan um það var myndað óhagnaðardrifið félag þannig að arðurinn nýtist í að þróa kerfið áfram.
Atvinnusköpun á Austurlandi
Hjá Austurneti starfa að jafnaði sjö starfsmenn í dag. Félagið er með fleiri verkefni en Tótal er það stærsta og áætlar Garðar að það standi undir um helmingi stöðugildanna á ársgrundvelli. Það myndar þannig kjölfestuna í starfsemi austfirsks hugbúnaðarhúss.
Garðar segir það hafa skipt miklu máli að AFL hafi valið að treysta Austurneti fyrir vinnunni. „Ef ég horfi til baka þá er ég hreinlega ekki viss um að Austurnet eða innlandsdeild Austurnets væri yfirhöfuð til í dag ef AFL hefði ekki komið til okkar með orlofskerfið og síðar félagakerfið. Það er mjög virðingarvert að stór austfirskur aðili hafi þorað að stíga þessi skref með okkur litla hugbúnaðarfyrirtækinu. Þetta byrjaði smátt og varð stærra.”
Að mati Garðars er hægt að læra af þessu að máli skipti að stunda viðskipti í heimabyggð. „Það er leitað til okkar með ýmis tölvumál, þetta styður hvert við annað. Ef það er vilji í nærsamfélaginu til að byggja upp fjölbreytileika í atvinnulífinu þá verðum við að þvinga okkur eins og við getum til þess.“
Austurnet skilar svo aftur út í samfélagið, meðal annars með tölvunarfræðikennslu í Menntaskólanum á Egilsstöðum og að taka að sér háskólanema sem eru að vinna lokaverkefni. Að hluta til varð Austurnet til utan um fullorðið fólk á Austurlandi sem fór í tölvunarfræðinám. „Þegar ég fór í námið 2010 datt mér ekki í hug að ég gæti starfað við hugbúnaðargerð á Egilsstöðum. Ég hugsaði aldrei um það í náminu að geta búið hér.“
Mikið gæfuspor að taka Tótal upp
Notendur kerfisins eru ánægðir með það enda sparar það þeim pening og vinnu. Eining-Iðja skoðaði nokkur kerfi, bæði hérlendis og erlendis, áður en Tótal varð fyrir valinu. „Rafræn kosning um kjarasamning kostar á aðra milljón ef hún er keypt annars staðar frá. Við höfum líka verið með samninga við símafyrirtækin um SMS-sendingar. Mér sýnist á öllu að fjárhagsábatinn verði verulegur,“ segir Tryggvi Jóhannsson, varaformaður félagsins.
„Við gátum tekið innheimtu iðgjalda beint til okkar en við höfðum áður greitt lífeyrissjóðunum fyrir hana. Það sparar okkur 40-60 milljónir á ári,“ segir Benóný Harðarson, fagstjóri kjarasviðs hjá Fagfélögunum.
Þar tóku Rafiðnaðarsambandið, VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Matvís upp Tótal um síðustu áramót. „Félögin eru með um 60 kjarasamninga og fyrir rafrænar kosningar hefur þurft að greiða hundruð þúsunda í hvert skipti. Þessu til viðbótar verður til vinnusparnaður með að halda betur utan um launagögn. Þegar við höfum innleitt kerfið að fullu og lagt önnur kerfi niður gerum við ráð fyrir sparnaði upp á 60-80 milljónir á ári. Miðað við fyrstu þrjá mánuðina gengur innheimtan jafnvel enn betur þannig að tekjur félaganna aukast. Það er utan við þessa tölu,“ segir Benóný.
Sigurður Behrend, Erlingur Þórarinsson og Guðmundur Rúnar Einarsson eru meðal þeirra forritara Austurnets sem starfa við Tótal. Mynd: Aðsend
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.