Skip to main content

Önnur verkalýðsfélög taka upp félagakerfi AFLs

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. mar 2023 09:01Uppfært 09. mar 2023 09:09

Fimm stéttarfélög hafa undirritað samkomulag um að sameinast um rekstur félagakerfisins Tótal. Kerfið var áður að fullu í eigu AFLs enda þróað fyrir það af Austurneti.


Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá félögunum. Nýju félögin eru Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði, Aldan Stéttarfélag í Skagafirði og Efling af höfuðborgarsvæðinu. Með samkomulaginu kaupa félögin hlut í Félaginu Tótal ehf., sem AFL átti áður að fullu.

Uppruni Tótals er rakinn til ársins 2011 þegar AFL lét gera fyrir sig orlofskerfi. Fimm árum síðar tók AFL í notkun félagakerfishluta, sem meðal annars tekur á móti skilagreinum og heldur utan um styrki og sjúkradagpeningum.

Síðan hefur það þróast frekar og inniheldur meðal annars kosningakerfi, skeytakerfi, vefverslun, aðgangsstýringar fyrir orlofsíbúðir, iðgjaldakerfi og skýrsluhald. Beintenging við bókhaldskerfi er fyrir hendi. Þá er kerfið með síður fyrir þar sem félagar geta sent inn umsóknir eða unnið að úrlausn sinna mála á sjö tungumálum og þeim fer fjölgandi.

Félagakerfið er hannað af AFLi í samvinnu við Austurnet á Egilsstöðum sem séð hefur um alla forritun. Síðustu mánuði hafa hin félögin bæst í þróunarhópinn.

Í tilkynningunni kemur fram að viðræður um aðkomu hinna félaganna að kerfinu hafi staðið í á annað ár. Hlíf samdi um notkun Tótal fyrir um ári og viðræður við önnur félög hófust síðasta haust. Stefnt er að því að hlutafélagið um Tótal verði rekið sem óhagnaðardrifið félag þar sem rekstrarkostnaði verði deilt niður á félögin sem nota það í hlutfalli við notkun þeirra.

Verið er að flytja gögn Öldunnar og Stéttarfélags Vesturlands yfir í Tótal og innleiðing hefst á næstu vikum. Innleiðingu hjá Eflingu á að vera lokið í maí. Fleiri aðildarfélög Alþýðusambands Íslands hafa óskað eftir kynningu á Tótal og verður fundað með þeim á næstu vikum.