Skip to main content
Auðvelda fólki með erlendan bakgrunn auk annarra að njóta Minjasafns Austurlands

Auðvelda fólki að njóta Minjasafns Austurlands með einfaldaðri íslensku

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. okt 2025 13:20Uppfært 29. okt 2025 13:29

Síðdegis á morgun mun Minjasafn Austurlands fyrsta sinni bjóða upp á nýjung sem miðar að því að gera safnið aðgengilegra fyrir það fólk sem er að læra íslensku sem annað tungumál. Það mun ekki síður gagnast öðrum einstaklingum sem þurfa ýmissa hluta vegna einfaldari framsetningu til að njóta safnsins og læra þar um menningu og sögu þjóðarinnar.

Að sögn Bjargar Björnsdóttur, safnstjóra Minjasafnsins, er meginhugmyndin að brúa bilið milli tungumálanáms og menningarupplifunar allra sem leggja stund á íslensku sem annað mál. Það mun jafnframt gagnast öllum öðrum sem hafa takmarkað vald á íslensku máli eins og börnum, ungmennum eða einstaklingum með lestrar- og málörðugleika.

Verkefni þetta, sem fengið hefur góða styrki úr sérstökum sjóði menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins og samfélagssjóði Alcoa, felst í þematengdri leiðsögn um safnið þar sem áherslan er á skýrt, hnitmiðað og myndrænt tungumál þar sem einfölduð íslenska er grunnurinn. Slíkt liður í að efla aðgengi að menningararfi svæðisins en ríkur vilji er til að þróa það áfram og þar meðal annars í samstarfi við Austurbrú.

Fyrsta leiðsögnin af þessu taginu, af fjórum alls í vetur, fer fram klukkan 17 á morgun en hugmyndin er að bjóða upp á tvær slíkar leiðsagnir fyrir áramót og tvær eftir áramótin. Leiðsögnin í öllum tilvikum í höndum Michelle L. Mielnik sem einmitt hefur lært íslensku sem annað tungumál.