„Álfaborgin er þverskurður af íslensku landslagi“
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. júl 2025 12:42 • Uppfært 11. júl 2025 12:43
Listamaðurinn Elín Elísabet Einarsdóttir opnar á morgun sýningu á Borgarfirði með verkum sem hún hefur unnið uppi á Álfaborginni. Sýningin er innblásin af náttúrunni sem á stundum setur bókstaflega sitt mark á listaverkin.
„Það eru einhverjir töfrar sem draga mig alltaf aftur hingað,“ segir Elín Elísabet, sem upphaflega kom til Borgarfjarðar eystra til að vinna í fiski einn mánuð haustið 2011.
Náttúran tekur þátt í listsköpuninni
Hún hefur komið þangað aftur og aftur, gerði lokaverkefni sitt í Myndlistarskólanum þar, hefur unnið að list með Rán Flygenring í Hafnarhólmanum og er núna þriðja árið í röð á Álfaborginni sem endar með sýningu í Gletti, galleríinu í Hafnarhúsinu.
„Ég er búin að vera hér núna í tvær vikur og hef farið daglega upp í Álfaborgina. Þar finn ég mér stað til að rýna í jörðina, gróðurinn og grjótið og mála svo nærmyndir af landslaginu.
Mér finnst Álfaborgin þverskurður af íslensku landslagi. Í henni eru mjúkir mosatónar, grösugar lautir en líka háir klettar og urðir. Ég kann ekki að nefna allar plöntutegundirnar sem vaxa saman á litlum blettum.
Ég sé samhengi vistkerfisins. Hvar fuglarnir eiga sér hreiður. Ég sé líka yfir allan fjörðinn og þar með hvernig þorpið virkar. Hver er að keyra, heyja eða úti að ganga,“ segir Elín Elísabet.
Náttúran kemur líka stundum óvænt inn í verkin. „Í fyrra skeit kría ofan á eitt verkið þegar ég var að vinna það. Ég leyfði því að vera þannig. Núna fauk mosi í málninguna og festist þar.“
Sýnir heima í Borgarfirði í haust
Elín Elísabet verður í sumar að mála á ýmsum jarðarsvæðum, Langanesi og útvíkum Rauðasandshrepps. Afraksturinn ætlar hún að sýna í Safnahúsinu í Borgarnesi í haust en þar er hún uppalin.
„Ég hef verið mikið á Borgarfirði að mála og fór að hugsa um að gera það líka á ættarslóðum. Ég er ættuð frá stöðunum þar sem vegurinn endar og sæki í þá. Afi og amma komu annars vegar úr Kolsvík í Rauðasandshreppi, hins vegar af Langanesi, en kynntust í Borgarnesi og bjuggu þar saman.“
Sýningaropnun Elínar er ekki eini menningarviðburðurinn á Borgarfirði á morgun, því um kvöldið heldur færeyska tónlistarkonan Guðrið Hansdóttir tónleika í Fjarðaborg.
Í Neskaupstað kemur dúóið Indoclandic fram á tónleikum í Tónspil í kvöld. Á morgun spila þar ungir tónlistarmenn úr bænum, þau Amelía, Ísabella, Júlíus og Óskar. Á Vopnafirði stendur bæjarhátíðin Vopnaskak yfir.
Mynd: Aðsend