Skip to main content

Nýlundabúðin opnar Lundahótel á Borgarfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. júl 2021 09:53Uppfært 06. júl 2021 10:14

„Í ár fannst okkur rökrétt næsta skref að opna hótel fyrir lunda, einnig í Borgarfjarðarhöfn. Verkefnið er styrkt af Brothættum byggðum á Borgarfirði,“ segir listamaðurinn Rán Flygenring en það vakti athygli í fyrrasumar þegar hún og Elín Elísabet Einarsdóttir settu upp tímabundna lundabúð í fuglaskoðunarhúsinu í Hafnarhólma á Borgarfirði eystra undir nafninu Nýlundabúðin.

„Vegna óðum minnkandi hentugs landssvæðis til lundabyggðar, lundaholuskorts og þess að að varpstöðvar lundans færast óðum norðar sökum loftslagsbreytinga hefur Nýlundabúðin ákveðið að leggja hönd á plóg prófastsins með opnun hótels,“ segir Rán.

„Hótel Nýlundabúðin mun innan skamms opna tuttugu nýjar lundaholur þar sem lundar sem og vel valdir aðrir sjófuglar verða boðnir velkomnir. Allt verður að sjálfsögðu á boðstólum á hóteli Nýlundabúðarinnar – sardínumorgunmatarhlaðborð, bar, póstkort, bréfsefni, hugguleg gestamóttaka og einnig verður úthlutað lóðum fyrir þá fugla sem kjósa að grafa sínar holur sjálfir.“

Fram kemur hjá Rán að Nýlundabúðin er virk á instagram (@nylundabudin) og þar má sjá hótelið taka á sig mynd, ýmsar upplýsingar um lundann og að sjálfsögðu lunda dagsins.

Formleg opnun verður föstudaginn 9. júlí kl 17:00 en fram að því eru gestir boðnir hjartanlega velkomnir í heimsókn á lundahótelið - þar má kynna sér líf lunda, ræða við starfsmenn, snæða morgunverðarsardínu og skrifa póstkort.