Skip to main content
Eldmessur Viðars Arnars Hafsteinssonar dugðu ekki til að vekja Hött gegn Fjölni. Mynd: Unnar Erlingsson

Körfubolti: Skellur hjá Hetti í annarri umferð

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. okt 2025 10:43Uppfært 20. okt 2025 10:44

Höttur, sem spáð hefur verið góðu gengi í fyrstu deild karla í körfuknattleik í vetur, tapaði nokkuð óvænt illa fyrir Fjölni á útivelli á föstudagskvöld í annarri umferð deildarinnar.

Höttur skoraði fyrstu fjögur stig leiksins en það var líka mesta forusta sem liðið náði í leiknum. Liðið leiddi lengst af fyrsta leikhluta og þótt Fjölnir tæki endasprett og væri 22-16 yfir eftir fyrsta leikhluta hefði það ekki átt að vera neitt til að hafa áhyggjur af.

Vandamálið var hins vegar að sóknarleikur Hattar fraus í lok fyrsta leikhluta og batnaði ekkert í öðrum leikhluta. Fjölnir fór því inn í hálfleik 51-31 yfir.

Fjölnir lét kné fylgja kviði og daðraði við 30 stiga forskot í þriðja leikhluta. Staðan eftir hann var 79-52. Í upphafi fjórða leikhluta kom loks þrjátíu stiga forskotið, Fjölnir byrjaði á þriggja stiga körfu og komst í 82-52.

Höttur vann vissulega fjórða leikhlutann með tæpum tíu stigum, en þegar á leið voru liðin komin í yngri leikmenn enda úrslitin ráðin. Fjölnir hafði 103-82 sigur. 

Í liði Hattar var framlagið mest frá Corevon Lott sem skoraði 23 stig. Óliver Árni Ólafsson verðskuldar hrós. Hann spilaði 12 mínútur og setti niður öll skotin sín sex sem skilaði tíu stigum. Í liði Fjölnis verður að minnast á Sigvalda Eggertsson sem átti stórleik, skoraði 31 stig og tók 15 fráköst. 

Fá fráköst án Knezevic

Höttur er enn án Nemanja Knezevic sem er meiddur. Fjarvera hans sést á tölfræðinni, Fjölnir tók 46 fráköst, 11 sóknar og 35 varnar á móti 30 fráköstum Hattar, þar af aðeins fjórum í sókn. Í fyrstu umferðinni á móti Skallagrími stóð Eysteinn Bjarni Ævarsson sig vel í fráköstunum en hann spilaði ekki á föstudag, samkvæmt tölfræðiskýrslu. 

Höttur samdi í síðustu viku við Sean McCarthy. Hann er fæddur á Írlandi en spilaði körfubolta í Saint Anselm háskólanum í Bandaríkjunum, en Höttur hefur áður fengið leikmenn þaðan. Sean er framherji, tæplega tveggja metra hár og skoraði að meðaltali 16 stig í leik í fyrra. Sean var á skýrslu gegn Fjölni en spilaði ekki enda nýlentur á landinu.

Þar sem aðeins eitt lið fer beint upp í úrvalsdeildina er ljóst að Höttur má ekki við mörgum úrslitum eins og á föstudaginn ætli það að ná markmiði sínu um að fara strax aftur upp úr fyrstu deildinni.