Körfubolti: Ekki teljandi erfiðleikar gegn Fylki
Höttur var ekki í vandræðum með Fylki í fyrstu deild karla í körfuknattleik þegar liðin mættust í Árbænum í gærkvöldi. Ákveðið var að skipta um Bandaríkjamann fyrir leikinn.
Bæði liðin eru nýliðar í deildinni, þó hvort á sinn hátt. Höttur kom niður úr úrvalsdeildinni en Fylkir upp úr annarri deildinni og er spáð beint niður aftur.
Höttur gaf Fylki engin grið í gær og var strax komið í ágæta forustu, 16-25 eftir fyrsta leikhluta og hélt svo áfram upp í 36-51 í hálfleik.
Heimamenn komu muninum niður í 10 stig, 47-57 snemma í þriðja leikhluta en Höttur gerði einfaldlega út um leikinn í kjölfarið. Liðið skoraði 14 stig í röð og fór inn í síðasta fjórðunginn með 57-77 forskot. Hlutirnir þróuðust áfram á sama veg og Höttur vann að lokum með tæpum 30 stigum, 76-105.
Eysteinn Bjarni Ævarsson var stigahæstur með 24 stig en Sean McCarthy skoraði 21. Yfirburðirnir þýddu að hægt var að dreifa mínútum vel á milli leikmanna. Julius Freyr Kuenzel Benediktsson spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki og skoraði fjögur stig.
Buskey til baka
Stóru fréttirnar úr herbúðum Hattar eftir vikuna er að Bandaríkjamaðurinn Corevon Lott fór frá félaginu. Hann skoraði 15,5 stig að meðaltali, tók 5,5 fráköst og sendi 4,7 stoðsendingar í þeim fjórum leikjum sem hann spilaði með Hetti.
Félagið hefur í staðinn samið við Deontaye Buskey að spila með liðinu út tímabilið. Hann lék áður með félaginu tímabilið 2023-24, skoraði þá 18,2 stig, tók 4,2 fráköst og sendi 4 stoðsendingar að meðaltali í leik í úrvalsdeildinni og liðið fór í úrslitakeppnina.
Hann spilaði síðasta vetur með Feurs í frönsku þriðju deildinni. Liðið féll úr henni í vor eftir þriggja ára veru. Buskey spilaði 35 leiki fyrir liðið og skoraði 14,5 stig að meðaltali. Hvorki Lott né Buskey voru í leikmannahópi Hattar gegn Fylki.