Blak: Engin stig fengust um helgina þrátt fyrir góða baráttu
Þróttur Fjarðabyggð tók á móti Völsungi frá Húsavík í Unbroken-deild kvenna um helgina. Liðin spiluðu tvo leiki, einn á laugardaginn og seinni leikurinn var á sunnudaginn . Lokastöður leikjanna 0-3 og 1-3 fyrir Völsungi í báðum leikjum.
Heimastúlkur byrjuðu fyrsta leik af miklum krafti og var góð stemning í salnum. Sóttu Þróttarar vel að gestunum og augljóst að hörkuleikur myndi eiga sér stað. Voru Þróttarar í forystu í fyrstu hrinu þar til gestirnir jöfnuðu í stöðunni 15-15. Fljótlega tóku þær svo rækilega fram úr heimamönnum og fengu Þróttarar aðeins eitt stig til viðbótar í fyrstu hrinu á meðan gestirnir nældu sér í tíu. Lokastaða fyrstu hrinu því 16-25 fyrir Völsungi.
Önnur hrina var mjög jöfn til að byrja með og fengu liðin stig sitt á hvað. Eldmóður var kviknaður í gestunum og voru þær fljótlega komnar í 8 stiga forystu, 10-18. Vörn Þróttar réði lítið við gríðarleg smöss Völsungs og voru þær fljótar að klára þá hrinu, 17-25 fyrir gestina.
Þróttur gaf allt í þriðju hrinu
Í þriðju hrinu leit allt út fyrir að Völsungur ætlaði að klára þetta hratt og örugglega. Voru þá gestirnir komnir í 8 stiga forystu í stöðunni 11-19. Þróttarar ætluðu ekki að láta sigra sig svo auðveldlega og áttu virkilega góða skorpu og gerðu sér lítið fyrir að minnka muninn úr 8 stigum í 2 stig, niður í 19-21.. Það dugði þó ekki til og lokatölur síðustu hrinu 20-25 fyrir Völsung. 0-3 lokatölur í leik laugardagsins.
Stigahæstar í liði Þróttar voru miðjurnar Maria Jimenez Gallego með 13 stig og Sylvía Ósk Jónsdóttir með 10 stig. Stigahæstar í liði Völsungs voru þær Taylor Nicole Horsfall með 25 stig og Inga Björg Brynjúlfsdóttir með 12 stig. Frelsingi Þróttara, Erla Marín Guðmundsdóttir, átti einnig áberandi góðan leik. Hún var alltaf á réttum stað og spilaði virkilega vel allan leikinn.
Hörkuhrina í byrjun seinni leiks
Sunnudagurinn byrjaði vel hjá Þrótti þessa helgina og ljóst að baráttan var til staðar hjá þeim. Stemningin í liðinu var áberandi góð og augljóst að þær ætluðu að gefa sitt allt í þennan leik. En Erla átti aftur frábæran leik, var alltaf á réttum stað og ætlaði ekki að leyfa þessum bolta að snerta gólfið. Þróttarastelpur héldu lengst af 3-4 stiga forustu fyrri hluta hrinunnar. Þær náðu mest 19-10 forskoti – og nú máttu þær bara alls ekki slaka á!
Fljótlega voru þó gestirnir búnir að minnka bilið í aðeins 3 stiga mun, 21-18. Mörg smöss fóru út hjá heimastúlkum, í bland við klaufamistök, sem urðu til þess að bilið minnkaði. Gestirnir sóttu æ harðar að heimastúlkum og jöfnuðu loks í 23-23.
Gríðarlegur baráttuandi var í báðum liðum og enn var jafnt í stöðunni 26-26. Þróttarstelpur náðu að klára þá hrinu með frábæru miðjusmassi frá Mariu, beint í gólfið, og lokatölur fyrstu hrinu 28-26 fyrir Þrótt .
Nóg eftir hjá Völsungi og meira til frammi
Fyrri hluti annarrar hrinu virtist frekar jafn. Völsungur átti margar góðar uppgjafir sem erfitt var að verjast og voru þær svo fljótlega komnar í ágæta forystu. Það virtist vera nóg til þess að vinna þessa hrinu og tóku gestirnir hana, 14-25.
Allt leit út fyrir að Völsungur myndi vera með yfirhöndina í þriðju hrinu allan tímann. Þær voru komnar í 9 stiga forystu og héldu henni fram eftir. Gríðarlega sterk smöss gesta í bland við mikið af smössum heimamanna út fyrir endalínu gaf Völsungi margt. Völsungur hélt þessari forystu alveg þar til í lok hrinunnar sem endaði 17-25 fyrir gestina.
Fjórða hrina byrjaði ekki betur fyrir heimamenn, vörn gestanna virtist vera órjúfanleg þrátt fyrir góða sókn Þróttara. Heimamenn áttu þó góðar skorpur inn á milli en það dugði ekki til og niðurstaða fjórðu hrinu 17-25 fyrir Völsung.
Karlarnir í Hveragerði
Karlalið Þróttar Fjarðabyggðar spilaði einnig tvo leiki um helgina á móti Hamri í Unbroken-deild karla. Fóru þeir leikir fram í Hveragerði á laugardag og á sunnudaginn
Leikur laugardagsins hefði ekki mátt vera naumari. Fyrsta hrina var hnífjöfn og endaði hún 26-24 fyrir Hamri. Sama má segja um aðra hrinu, hvorugt liðið með yfirburði og fengu liðin stig til skiptis þar til í lok hrinunnar þegar Hamar tók góða skorpu og vann hana 25-21. Þriðja hrina fór fram með svipuðum hætti allt þar til í lokin þegar heimamenn náðu yfirhöndinni og þriðja hrina endaði í sömu tölum og sú fyrsta, 26-24 fyrir heimamönnum. Hamar vann laugardagsleikinn því 3-0.
Á sunnudaginn byrjaði leikurinn enn og aftur mjög jafnt. Fyrstu hrinu lauk í stöðunni 25-21 fyrir Hamarsmönnum. Leit allt út fyrir að þeir myndu einnig hreppa aðra hrinuna þar sem Hamar var yfir alla hrinuna þar til að Þróttarar náðu að jafna í stöðunni 19-19. Eftir það fengu liðin stig til skiptis en Þróttarar höfðu betur og kláruðu hrinuna 23-25.
Í þriðju hrinu byrjuðu Þróttarar betur en um miðja hrinu stungu Hamarsmenn þá rækilega af. Lokatölur í þriðju hrinu urðu 25-14 fyrir Hamar. Fjórða hrina var á sömu lund, um miðbik hrinunnar stungu hamarsmenn gestina af og lokatölur 25-19 fyrir hamarsmönnum þrátt fyrir nokkrar góðar skorpur inn á milli hjá Þrótturum. Lokatölur leiksins 3-1 fyrir Hamri.
Hvað er næst?
Næsti leikur kvennaliðs Þróttar fer fram föstudaginn 14. nóvember á móti Þrótti Reykjavík. Leikurinn fer fram í Laugardalshöll klukkan 19:30.
Karlaliðið fær örlítið lengri pásu og næsti leikur þeirra fer fram 22. nóvember hér fyrir austan gegn KA. Þá mæta þeir Akureyringunum bæði á laugardag og sunnudag, og kvennaliðið mun þá einnig mæta KA. Það eru spennandi blakhelgar framundan!