Körfubolti: Ekkert bikarævintýri hjá Hetti í ár
Höttur féll í gærkvöldi úr leik í bikarkeppni karla í körfuknattleik í fyrstu umferð. Mótherjinn var Tindastóll, eitt sterkasta lið landsins í dag, svo ljóst var að á brattann yrði að sækja.
Höttur fór vel af stað og var yfir eftir fyrsta leikhluta, 27-26. Liðið var áfram sjónarmun á undan fyrri helming annars leikhluta. Tindastóll snéri leiknum með níu stigum í röð sem breyttu stöðunni úr 49-45 í 49-54. Gestirnir voru því 57-63 yfir í hálfleik.
Tindastóll var miklu betri í þriðja leikhluta, náði 20 stiga forustu upp úr miðjum leikhlutanum, 67-87, eftir að hafa skorað tólf stig í röð. Höttur náði muninum aðeins niður, þó ekki nema í 81-97, áður en leikhlutanum lauk.
Úrslitin voru þó orðin nokkuð öruggar og í fjórða leikhluta hafði Sauðárkróksliðið álíka yfirburði. Lokaniðurstaðan varð því tæplega 30 stiga sigur, 97-125.
McCarthy fer vel af stað
Að komast lengra í bikarnum hefði verið ánægjulegt fyrir Hött en ljóst var að verkefnið gegn trúlega best mannaða liði landsins í dag yrði alltaf erfitt. Á tímabili þar sem Höttur er í fyrstu deildinni er ánægjulegt að hafa fengið eitt besta lið landsins austur.
David Ramos og Sean McCarthy voru stigahæstir hjá Hetti með 19 stig. Höttur er enn án miðherjans Nemanja Knezevic. Það getur sloppið í fyrstu deildinni en ekki gegn liði eins og Tindastóli. Hattarmenn leystu það þó þolanlega í gærkvöldi.