Skip to main content
Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða

Blak: Bæði lið töpuðu í ferð til höfuðborgarinnar

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. nóv 2025 11:05Uppfært 04. nóv 2025 11:05

Bæði lið Þróttar í blaki léku útileiki um síðustu helgi. Karlaliðið gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ en kvennaliðið gegn HK í Kópavogi.

Afturelding var yfir nánast samfleytt í fyrstu hrinu en forskotið var aldrei mikið. Heimaliðið hafði þó hrinuna 25-22. Þróttur kom sofandi inn í aðra hrinuna og Afturelding skoraði fyrstu tíu stigin í henni. Úrslitin voru þá í raun ráðin og Afturelding vann hana 26-9.

Þróttur kom sterkari inn í þriðju hrinuna og komst í 1-4. Afturelding komst yfir eftir að hafa snúið stöðunni úr 5-7 í 9-7. Á móti breytti Þróttur stöðunni úr 12-11 í 12-14. Þá snérist hrinan aftur, Afturelding komst í 16-14 en Þróttur komst aftur af stað eftir að hafa tekið leikhlé.

Aftur komu þrjú stig Þróttar í röð, úr 17-15 í 17-18 en þá komu fjögur stig Aftureldingar í röð upp í 21-18. Staðan var því orðin vænleg fyrir Mosfellsbæjarliðið. Þróttur tók leikhlé, skoraði eftir það þrjú stig í röð og komst yfir 21-22. Afturelding jafnaði en Þróttur hélt út og vann 23-25.

Góður endasprettur Aftureldingar

Þróttur byrjaði aftur vel í fjórðu hrinu og var með yfirhöndina í henni upp í stöðuna 12-14. Þá skoraði Afturelding sex stig í röð. Tvö leikhlé breyttu engu, Afturelding hélt sinni siglingu áfram, vann hrinuna 25-18 og leikinn 3-1.

Raul Asensio var langatkvæðamestur hjá Þrótti. Út frá tölfræðigreiningu leiksins má helst ráða að vörn Aftureldingar hafi gengið betur en liðið skoraði til dæmis 11 stig gegn 3 úr blokkum. Þróttur er eftir leikinn í næst neðsta sæti með fjögur stig.

Erfitt gegn efsta liðinu

Kvennaliðið spilaði gegn HK í Fagralundi. Fyrir leikinn var HK í efsta sæti deildarinnar, hafandi tapað aðeins einni hrinu í haust en Þróttur í því neðsta með aðeins eina unna hrinu. Leikurinn var eftir þessu.

HK hafði yfirburði, vann fyrstu hrinu 25-11, aðra 25-12 og þá þriðju 25-14. Það þýddi að leikurinn fór 3-0. Tölfræðigreining leiksins liggur ekki fyrir.