Körfubolti: Höttur með 11 stiga sigur á Hamri
Höttur náði sér aftur í gang í fyrstu deild karla í körfuknattleik með 108-97 sigri á Hamri úr Hveragerði á Egilsstöðum í gærkvöldi. Leikurinn var í öruggari höndum heimamanna en lokatölurnar gefa til kynna.
Höttur tapaði fyrir Fjölni í síðustu viku og því mikilvægt að svara sem fyrst. Nýr erlendur leikmaður, Írinn Sean McCarthy, lék í gærkvöldi sinn fyrsta leik með félaginu og átti ágætan dag.
Höttur gaf tóninn strax frá uppkasti og komst í 10-0 áður en gestirnir komust á blað. Þá voru liðnar rúmar þrjár mínútur af leiknum. Hamar lagaði stöðuna heldur og var hún 25-18 eftir fyrsta leikhluta.
Höttur hélt um eða yfir tíu stiga forskoti í gegnum annan leikhlutann og bætti heldur í þegar leið að hálfleik. Höttur fór inn í hann með 54-35 forskot. Áfram dró heldur í sundur með liðunum í þriðja leikhluta, eftir hann var Höttur yfir 84-60.
Hamar klóraði í bakkann
Höttur hélt um 20 stiga forskoti þar til um tvær mínútur voru eftir af leiknum. Þá voru úrslitin ráðin og Hamar náði smá áhlaupi, skoraði níu stig gegn þremur síðustu mínútuna og kom muninum niður í ellefu stig.
David Guardia var stigahæstur Hattar í gær með 20 stig en nýi maðurinn McCarthy skoraði 19. Hvor þeirra tók að auki sex fráköst. Höttur er enn án miðherjans Nemanja Knezevic, sem var liðinu dýrt gegn Fjölni, en í gærkvöldi hafði það betur í frákastabaráttunni, með 36 fráköstum gegn 34.
Viðar Örn áfram með landsliðinu
Í öðrum fréttum af liðinu er það helst að þjálfarinn, Viðar Örn Hafsteinsson, hefur framlengt samning sinn sem aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins. Það var gert samhliða því að aðalþjálfarinn, Craig Pedersen, skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning.