Körfubolti: Höttur þurfti að hafa fyrir að vinna Selfoss
Höttur er áfram á beinu brautinni í fyrstu deild karla í körfuknattleik eftir sigur á Selfossi í gærkvöldi. Liðið byrjaði vel en gaf síðan eftir og þurfti að hafa fyrir hlutunum í lokin.
Höttur kom sér í vænlega stöðu með tíu stigum í röð upp úr miðjum fyrsta leikhluta, sem breyttu stöðunni úr 12-15 í 22-15. Liðið hélt áfram og var yfir 28-18 eftir fyrsta leikhluta, þannig að staðan virtist góð.
Heldur dró saman með liðunum í öðrum leikhluta, Selfoss kom muninum niður í fjögur stig skömmu fyrir leikhlé en Höttur endaði betur og var 47-39 yfir í hálfleik.
Besti kafli Selfoss í leiknum kom snemma í þriðja leikhluta. Eftir að Höttur hafði komist í 53-41 skoruðu gestirnir tólf stig í röð og jöfnuðu. Þeir komust yfir í 55-57 en ekki lengra og Höttur náði aftur frumkvæðinu þótt jafnt væri fyrir lokakaflann, 61-61.
Sterkari þegar á reyndi
Höttur byrjaði fjórða leikhluta mun betur og komst fljótlega í 70-62. Selfyssingar áttu þó eitt áhlaup eftir þegar þeir minnkuðu muninn úr 83-72 í 83-80. Deontay Buskey setti þá niður tvö vítaskot og kom Hetti í fimm stiga forystu.
Selfoss fór í sókn og reyndi þriggja stiga skot, sem geigaði en liðið náði frákastinu og sótti víti sem fóru bæði niður. Höttur klikkaði á sókn og Selfoss náði boltanum þegar 15 sekúndur voru eftir. Hetti tókst að tefja skot gestanna fram á síðustu sekúnduna, það var utan þriggja stiga línunnar í von um að jafna en geigaði.
Fjögur lið í toppbaráttunni
Buskey, sem lék í gærkvöldi sinn fyrsta leik fyrir Hött í rúmt ár, var stigahæstur með 17 stig en Sean McCarthy og Adam Eiður Ásgeirsson skoruðu 15 hvor.
Höttur er með átta stig, líkt og Haukar og Breiðablik, en hefur leikið leik meira. Fjölnir getur náð liðinu að stigum en öll þessi lið eiga leiki í kvöld.