Skip to main content
Eysteinn Bjarni átti góðan leik. Mynd: Unnar Erlingsson

Körfubolti: Rúmlega 20 stiga sigur á Skallagrími

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. okt 2025 10:54Uppfært 13. okt 2025 10:54

Höttur fór af stað eins og vænst var í fyrstu deild karla í körfuknattleik með 20 stiga sigri á Skallagrími. Þótt fyrirfram væri búist við talsverðum muni á liðunum var það ekki fyrr en í síðasta leikhluta sem Höttur sýndi klærnar.

Höttur féll úr úrvalsdeild í vor og er spáð sigri í deildinni í ár. Skallagrímur hefur hins vegar verið meðallið í fyrstu deildinni síðustu ár. Út frá þeim forsendum mátti vænta Hattarsigurs á fimmtudagskvöld.

Það gekk þokkalega eftir í fyrsta leikhluta, Höttur leiddi eftir hann 24-18. Höttur var kominn í nokkuð þægilega stöðu með 13 stiga forskot um miðjan annan leikhluta en Skallagrímur átti góðan kafla fyrir hálfleik og minnkaði muninn niður í fjögur stig, 47-43.

Adam Eiður var stigahæstur. Mynd: Unnar Erlingsson

Frábær fjórði leikhluti

Skallagrímur náði muninum niður í þrjú stig í þriðja leikhluta, missti hann aftur upp í tíu og kom honum aftur niður í þrjú, 65-62 áður en leikhlutanum lauk. Aldrei tókst þó að koma honum neðar og jafna eða komast yfir.

En þrjú stig eru ekki mikill munur í körfubolta og Skallagrímur því með ágæta möguleika fyrir síðustu mínúturnar. Þá lokaði Höttur vörninni, fyrstu sex mínútur leikhlutans skoraðu gestirnir aðeins fjögur stig meðan heimaliðið setti 16. Skallagrími varð lítið frekar ágengt og Höttur vann 93-71.

Nýi Bandaríkjamaðurinn Corevon Lott. Mynd: Unnar Erlingsson

Fréttir af Hetti

Fyrirliðinn Adam Eiður Ásgeirsson var stigahæstur hjá Hetti með 27 stig. Næstur kom nýi Bandaríkjamaðurinn Corevon Lott með 16. Mesta framlag átti Eysteinn Bjarni Ævarsson sem auk þess að skora 13 stig tók 14 fráköst og sendi fimm stoðsendingar.

Mínútur dreifðust vel milli leikmanna Hattar, enginn lék fleiri en 30. Liðið var án miðherjans Nemanja Knezevic og framherjans Matej Karlovic. Allir leikmenn í hóp komu inn á. Af ungu leikmönnunum spilaði Andri Hrannar Magnússon mest, rúmar níu mínútur. Sæþór Elmar Kristjánsson er kominn aftur til liðsins. Hann spilaði með liðinu í úrvalsdeildinni fyrir tveimur árum en var hjá Fjölni í fyrra.

Viðar Örn Hafsteinsson þjálfar Hött áfram. Mynd: Unnar Erlingsson