Körfubolti: Hetti spáð upp á topp
Hetti er spáð sigri í fyrstu deild karla í körfuknattleik í vetur. Fyrsta umferð deildarinnar hefst í kvöld þegar Höttur tekur á móti Skallagrími úr Borgarnesi.
Hetti er spáð efsta sætinu í deildinni í spá fyrirliða og þjálfara sem Körfuknattleikssambandið gerir árlega í aðdraganda móts. Höttur fékk þar 265 stig af 308 mögulegum.
Næst á eftir kemur Sindri með 239 og Fjölnir í kjölfarið með 230 stig. Lengra er niður í Hauka og Breiðablik sem fá þó yfir 200 stig. Efsta lið deildarinnar fer beint upp en liðin í 2. – 5. sæti í úrslitakeppni þar sem leikið er um seinna úrvalsdeildarsætið. Miðað við spána eru þetta liðin sem berjast um það.
Mótherjar kvöldsins í Skallagrími eru sjöttu í röðinni. Það yrði framför frá í fyrra þegar liðið lenti í næst neðsta sæti, jafnt neðsta liðinu að stigum. Í vetur er Fylki spáð botnsætinu, það fékk 28 stig, eins lítið og hægt var, í spánni.
Litlar breytingar á leikmannahópnum
Hetti hefur haldist vel á lykilmönnum þrátt fyrir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni í vor. Stærsta breytingin er nýr Bandaríkjamaður. Í vetur spilar með liðinu bakvörðurinn Core‘von Lott sem leikið hefur í Finnlandi, Slóvakíu og Litháen síðan hann útskrifaðist úr háskóla. Liðið fékk líka Ásmund Múla Ármannsson, ungan bakvörð úr Stjörnunni.
Báðir dönsku leikmennirnir, Gustav Suhr-Jessen og Adam Heede-Andersen hafa skipt yfir í dönsk lið.
Toppslagur í síðustu umferð?
Leikið er nokkurn veginn vikulega í deildinni fram til 20. mars. Höttur á almennt heimaleiki á fimmtudagskvöldum en útileiki á föstudagskvöldum. Miðað við spána gæti orðið mikið undir í lokaumferðunum. Síðasti heimaleikurinn verður gegn Haukum, sem féllu með Hetti en liðið endar á útileik gegn Sindra.
Í byrjun vikunnar var dregið í fyrstu umferð bikarkeppninnar. Höttur tekur á móti Tindastóli, sem spáð er Íslandsmeistaratitlinum eftir að hafa endað í öðru sæti í fyrra. Umferðin er leikin helgina 19. – 20. október.