Fótbolti: Annar flokkur kvenna fagnaði silfrinu
Annar flokkur kvenna hjá FHL fékk verðlaun sín afhent fyrir annað sætið í A-deild deild í sumar. Meistaraflokkur lék sinn síðasta heimaleik á laugardag.
Þetta er í þriðja sinn sem FHL sendir U-20 ára lið til keppni. Fyrsta sumarið var erfitt, liðið tapaði öllum leikjum sínum en í fyrra komst liðið í undanúrslit B-deildar.
Það komst ekki beint upp um deild, heldur ákvað Knattspyrnusamband Íslands að færa það upp. Átta lið spiluðu í A-deildinni í sumar og fór Breiðablik með sigur af hólmi með 30 stig í 14 leikjum.
FHL varð í öðru sæti með 27 stig, vann níu leiki en tapaði fimm. Liðið skoraði flest mörk, 51 talsins. Það átti enda tvo markahæstu leikmennina. Björg Gunnlaugsdóttir skoraði 11 mörk og Christa Björg Andrésdóttir tíu. Þær voru meðal þeirra leikmanna sem einnig spiluðu með meistaraflokki í sumar.
U-20 ára liðið fékk verðlaun sín afhent eftir síðasta heimaleik meistaraflokks, 2-3 tap fyrir Þór/KA í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag. Tvær ungar stelpur fengu þar sína fyrstu leiki með meistaraflokki, Emma Ástrós Stefánsdóttir 15 ára og Edda Maren Sonjudóttir 13 ára.
Fjörugt í lokin
Af leiknum er annars það að segja að gestirnir frá Akureyri skoruðu eina markið í fyrri hálfleik. Þær bættu síðan við öðru marki á 78. mínútu og virtust vera að landa öruggum sigri í frekar daufum leik.
En FHL var alltaf inni í leiknum og Alexia Czerwien hélt því þar með marki á 89. mínútu. Á annarri mínútu uppbótartíma skoraði Þór/KA eftir skyndisókn en Alexia skoraði aftur mínútu síðar úr síðustu sókn leiksins.
Í leikslok fengu tveir leikmenn liðsins viðurkenningar fyrir að hafa náð 100 leikjum með liðinu, annars vegar Björg Gunnlaugsdóttir og hins vegar Katrín Edda Jónsdóttir. Þær hafa náð því á stuttum tíma því Björg er fædd árið 2006 og Katrín Edda árið 2005. Björg lék alla leiki liðsins í sumar, bæði í deild og bikar.