Skip to main content
Aðalstjórn Hattar ásamt fráfarandi formanni eftir aðalfund í vor. Frá vinstri: Sigríður Klara Sigfúsdóttir, Jóhann Harðarson, Lísa Leifsdóttir, fráfarandi formaður og Agla Þorsteinsdóttir. Mynd: Unnar Erlingsson

Boða til samtals um framtíð Hattar

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. nóv 2025 15:49Uppfært 11. nóv 2025 15:57

Aðalstjórn Íþróttafélags Hattar á Egilsstöðum hefur boðað til opins samráðsfundar á morgun sem markar upphafið að stefnumótun félagsins. Formaðurinn segir sérstaka áherslu vera á samvinnu íþróttafélagsins við sveitarfélagið.

Þessi fundurinn er upptakturinn að stefnumótun félagsins. Ein af lykiláherslunum er að við viljum auka samtal milli sveitarfélagsins og íþróttafélagsins um hvernig við viljum sjá þróunina til framtíðar,“ segir Jóhann Harðarson sem tók við sem formaður Hattar í vor.

Vilja framkvæmastjóra til að styðja við sjálfboðaliðastarfið

Sem hluti af samvinnu Hattar og Múlaþings er að sveitarfélagið komi að því að fjármagna starfsmann fyrir Hött. Í dag er ekki starfandi framkvæmdastjóri hjá aðalstjórn.

„Við erum félagslega sterk og sýndum það enn eina ferðina þegar við héldum Unglingalandsmót UMFÍ í sumar. Það hefur hins vegar háð okkur að hafa ekki framkvæmdastjóra, eins og önnur félög af svipaðri stærð. Starfið reynir mikið á sjálfboðaliðana og við viljum fá starfsmann til að létta undir með þeim,“ segir Jóhann.

Félagið hefur sent Múlaþingi erindi um þetta samtal og starfsmanninn sem er til meðferðar hjá nefndum sveitarfélagsins þessa dagana.

Horfa til fordæma annars staðar

Hetti til ráðgjafar í stefnumótunarvinnunni verður Guðmunda Ólafsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness, sem að undanförnu hefur unnið með Sindra á Höfn í sambærilegu verkefni. 

„Við höfum horft þangað eftir ákveðinni fyrirmynd. Þar var gerður samningur milli kaupstaðarins og ÍA sem síðan hefur vaxið og dafnað. Guðmunda kom snemma að honum og fylgdi eftir þannig að hún þekkir hann vel.“

Fundurinn á morgun hefst klukkan 17:30 og verður haldinn í Menntaskólanum á Egilsstöðum. „Við köllum alla sem vilja til opins samtals um hvernig þeir vilja sjá félagið mótast til framtíðar,“ segir Jóhann að lokum.