Blak: Karlaliðið vann fyrsta heimaleik tímabilsins
Blaklið Þróttar léku sína fyrstu heimaleiki á þessari leiktíð þegar HK kom í heimsókn um helgina. Karlaliðið vann sinn leik en kvennaliðið spilaði tvo leiki og tapaði báðum.
Óveður sem setti flugsamgöngur úr skorðum á laugardag raskaði einnig leikjunum. Gerð voru ný áform um leiktíma síðar um daginn, eftir því sem flugi var reglulega frestað, uns því var alveg aflýst. Þess vegna var leikið á sunnudag og seinni leikurinn í gær, tímanlega til að HK kæmist í flug.
Þróttur náði undirtökum í karlaleiknum um miðja fyrstu hrinu. HK jafnaði þó þrisvar í lokin, síðast í 21-21 en komst aldrei yfir og Þróttur vann 25-22.
Í annarri hrinu hafði Þróttur yfirburði og skoraði fimm stig í röð þegar staðan breyttist úr 12-10 í 17-10. Heimamenn komust mest átta stigum yfir, 23-15 en HK minnkaði muninn aðeins undir lokin. Þróttur vann þó 25-19. Þróttur hafði yfirburði í þriðju hrinu og vann hana 25-12.
Raul Asensio og Leonardo Aballay vor atkvæðamestir Þróttara. Aballay tók til að mynda 20 uppgjafir og skoraði úr þeim sex ása.
Ekki gekk jafn vel hjá kvennaliðinu sem tapaði báðum sínum leikjum 0-3. Fyrsta hrinan í fyrri leiknum var eign HK sem vann hana 16-25. Ekki gekk betur í annarri hrinu sem HK vann 12-25 né heldur þeirri þriðju sem HK vann 11-25.
Seinni leikurinn gekk lítið betur. HK vann fyrstu hrinu 20-25, aðra 16-25 og þá þriðju 9-25. Tölfræði úr þeim leikjum hefur ekki verið gefin út.