Yfir 21 gráða á Borgarfirði í gær
Þau miklu hlýindi sem ríkt hafa á Austurlandi lengst af þessu ári halda áfram. Í gær fór hitinn yfir tuttugu gráður á nokkrum veðurstöðvum.
Hæstur varð hitinn á Borgarfirði, fór í 21,2 gráðu fyrir hádegi og hélst í um 20 gráðum þar til um klukkan þrjú. Hitinn fór einnig í um 21 gráðu á Seyðisfirði, yfir 20 gráður í Neskaupstað og tæplega það á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði.
Hlýindin halda áfram því í dag er spáð allt að 16 stiga hita. Helst er von á slíkum hita á sömu slóðum og í gær, það er á Fljótsdalshéraði, Seyðisfirði, Norðfirði og Vopnafirði. Hlýindi gætu enst fram til miðvikudags.
Í færslu frá veðurþjónustunni Bliku segir að hitinn hafi síðast náð 20 stigum í október árið 2017, á Kvískerjum og þar áður árið 2013 á Reyðarfirði. Talið er að dægurhitamet hafi verið sett í gær.
Hlýja loftið yfir Austfjörðum á uppruna sinn vestur af Asóreyjum frá því fyrir helgi. Það flýtur inn yfir landið og kemur niður fyrir tilstuðlan fjalllendis á Norður- og Austurlandi. Í færslunni segir að merkilegt sé hversu hlýtt loftið hafi haldist á leiðinni.
Trausti Jónsson, veðurfræðingur, skrifar á bloggsíðu sína að hæsti hiti sem mælst hafi í október hafi verið 23,5 stig á Dalatanga 1. október árið 1973.
Segja má að árið allt hafi verið óvenju hlýtt. Til að mynda mældist nýliðinn september sá sjötti hlýjasti í sögunni á Egilsstöðum og 9. – 10. á Dalatanga og Teigarhorni. Vert er að benda á að stöðin á Teigarhorni á að baki 153 ára sögu.