Þokast í meirihlutaviðræðum í Fjarðabyggð

Formlegar viðræður um myndun nýs meirihluta í bæjarstjórnar Fjarðabyggðar hafa þokast áfram síðustu daga. Oddviti Sjálfsstæðisflokksins segir að fara þurfi yfir ákveðin mál en markmiðið sé að vanda til verka. Reiknað sé með að ekki verði flækjur við að raða í embætti.

„Þetta gengur vel. Við höfum hist nokkrum sinnum ásamt bæjarfulltrúum og varabæjarfulltrúum og eigum eftir að hittast oftar.

Við erum að ræða málin og fara yfir þetta. Formlegar viðræður verða áfram næstu daga en staðan ætti að skýrast á næstu dögum,“ segir Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Þarf að gera málamiðlanir


Tæpar tvær vikur eru núna síðan Framsóknarflokkur sleit meirihlutasamstarfi sínu við Fjarðalistann eftir klofning í atkvæðagreiðslu um breytingu á fræðslumálum. Eftir þreifingar í kjölfarið hófust formlegar viðræður á föstudag.

Ragnar segir ekki tímabært að ræða stöðuna í einstökum málaflokkum og hvort mikið beri í milli á ákveðnum sviðum. „Það hefur auðvitað verið áherslumunur á flokkunum á kjörtímabilinu. Við förum vel yfir það. Í samningaviðræðum þurfa alltaf að verða málamiðlarnir og finna sameiginlega fleti. Við ætlum að gefa okkur tíma og vanda til verka við meirihlutasáttmálann.

Við stöndum frammi fyrir áskorunum í rekstri og húsnæðismálum en höfum öflugt atvinnulíf og ýmis tækifæri. Ef okkur tekst vel til við að rýna í reksturinn þá getur framtíðin verið mjög björt og uppbyggingarskeið framundan.“

Skólamáltíðir skila tekjum


Fríar skólamáltíðir eru eitt af þeim atriðum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur deilt um við meirihlutann síðustu ár. Þær deilur eru væntanlega úr sögunni með ákvæði í nýjum kjarasamningum um að ríkið styðji við þær á landsvísu. Ríki og sveitarfélög eiga eftir að ganga frá samningum sín á milli en gert er ráð fyrir að ríkið greiði allt að 75% upphæðarinnar. Þetta á að taka gildi fyrir næsta skólaár.

Skólamáltíðir hafa verið gjaldfrjálsar í Fjarðabyggð frá árinu 2021 sem þýðir að með stuðningi ríkisins lækkar kostnaður Fjarðabyggðar af þeim milli ára. Meirihluti og minnihluti hafa deilt um kostnaðinn, Sjálfstæðismenn hafa lagt út frá heildarkostnaði upp á 120 milljónum með 70 milljónum í þá viðbótarniðurgreiðslu sem þurfti til að gera þær gjaldfrjálsar.

„Ég er jafn mikið á móti fríum skólamáltíðum, hvort sem ríkið greiðir þær eða sveitarfélögin. Ég held það sé annars ótímabært að tjá sig um þetta fyrr en við sjáum hvernig ríkið kemur að málum, það skiptir mikli máli hvernig það verður.“

Jóna Árný áfram bæjarstjóri


Ragnar segir engin átök um embætti í nýjum meirihluta og reiknar með að það verði tiltölulega einfalt verk þegar málefnasamningurinn liggi fyrir. Jóna Árný Þórðardóttir verður áfram bæjarstjóri. „Hún nýtur mikils trausts. Sjálfstæðisflokkurinn, ásamt Framsóknarflokki og Fjarðalista, stóð að ráðningu hennar og það er mikil ánægja með hennar störf.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.