Gjaldfrjálsar skólamáltíðir í Fjarðabyggð

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur staðfest að frá upphafi þessa skólaárs greiði sveitarfélagið að fullu niður máltíðir fyrir börn í grunn- og leikskólum sveitarfélagsins. Forseti bæjarstjórnar fagnar því að mikilvægt mál sé í höfn en fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefði viljað forgangsraða öðruvísi.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir voru hitamál fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 og rötuðu inn í málefnaskrá meirihluta Framsóknarflokks og Fjarðalista. Verðskráin hefur verið lækkuð í áföngum á kjörtímabilinu og á fundi bæjarráðs í síðustu viku var samþykkt ný gjaldskrá sem þýðir að skólamáltíðir grunn- og leikskólabarna verða gjaldfrjálsar.

„Það er gríðarlega mikilvægt skref til að geta boðið öllum börnum upp hollan mat óháð efnahag foreldra, auk þess að spara barnafólki talsverðar upphæðir á hverju ári. Ég er virkilega ánægð með að þetta mál sé í höfn.

Í málefnasamningi meirihluta Fjarðalista og Framsóknarflokks eru skýrar áherslur á velferð og málefni fjölskyldna í Fjarðabyggð,“ segir Eydís Ásbjörnsdóttir, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og oddviti Fjarðalistans.

Ragnar Sigurðsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði, greiddi atkvæði gegn samþykktinni, eins og flokkurinn hefur gert allt kjörtímabilið. Í samtali við Austurfrétt sagði Ragnar að framboðið hefði strax árið 2018 varað við óvissu í efnahagsmálum, vegna aukinnar verðbólgu og fiskveiða.

„Við erum enn sömu skoðunar og teljum mikilvægt að hlúð verði að rekstri sveitarfélagsins og komið verði í veg fyrir frekari lántökur áður en sífellt sé bætt í útgjaldaauka. Jafnframt teljum við brýnna að stefna að almennari aðgerðum í lækkun gjaldskráa og þá er einsýnt að lækkun á meðal annars álagningarstuðli fasteignagjalda og vatnsgjaldinu mun gagnast öllum samfélagshópum,“ segir hann.

Ragnar segir niðurgreiðsluna þýða 100 milljóna útgjaldaaukningu á ársgrundvelli, samanborið við 2018. Eydís segir hins vegar að samkvæmt bókhaldi sveitarfélagsins hafi máltíðin kostað 450 krónur árið 2018 og tekjur af skólamáltíðum veturinn 2017-18 verið áætlaðar um 62 milljónir. Lækkunin nú er þriðjungur af því eða 20,7 milljónir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar