Formlegar meirihlutaviðræður í Fjarðabyggð

Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa ákveðið að hefja formlegar viðræður um myndun nýs meirihluta í bæjarstjórn Fjarðabyggðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem framboðin sendu frá sér í morgun. Framsóknarflokkurinn ákvað fyrir viku að slíta samstarfi sínu við Fjarðalistann vegna trúnaðarbrests.

Síðan hafa staðið yfir óformlegar viðræður milli framboðanna. Í tilkynningunni segir að fulltrúar þeirra telji forsendur til að taka samtalið lengra. Vonast sé til að hægt verði að ljúka viðræðum í næstu viku, ef allt gangi eftir.

Meirihlutinn klofnaði á aukafundi bæjarstjórnar á þriðjudaginn í síðustu viku. Þar var tekin fyrir tillaga um breytingar á fræðslustofnunum Fjarðabyggðar, sem fól í sér að sameina stofnanir eftir skólastigum og fækka millistjórnendum eða breyta hlutverki þeirra.

Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, fulltrúi Fjarðalista, greiddi atkvæði gegn tillögunni og hefði hún fallið án atkvæða minnihluta Sjálfstæðisflokks. Bæði oddviti flokksins og Framsóknarflokks lýstu strax á fundinum furðu sinni á atkvæðinu en ekki síður orðum Hjördísar sem sagði skorta á samráð við skólasamfélagið.

Samþykktin hefur síðar mætt mikilli andstöðu úr skólasamfélaginu. Kennarasambandið hefur lýst efasemdum um að hún standist lög. Undirskriftalistar þar sem skorað er á bæjarstjórn að draga ákvörðunina til baka verða afhentir við bæjarstjórnarskrifstofurnar á Reyðarfirði eftir hádegi í dag.

Þrátt fyrir erfiða daga virtist liggja vel á bæjarfulltrúum á bæjarstjórnarfundi í gær. Hjördís Helga stýrði fundinum, sem var stuttur, en heyra mátti hnyttnar orðsendingar og hlátur nokkrum sinnum í útsendingunni. Þar var fundargerð bæjarráðs, sem innihélt tillögurnar, tekin til afgreiðslu. Hún var samþykkt með sjö atkvæðum. Hjördís sat hjá og sagði að afstaða sín í málinu hefði ekkert breyst. Þórdís Mjöll Benediktsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisfloksins, vék sæti í þeim liðum sem snéru að fræðslumálunum vegna vanhæfis en hún er leikskólastjóri á Eskifirði. Hún sat ekki heldur fundinn í síðustu viku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.