Skip to main content

Undirskriftasöfnun hafin gegn breytingum á skólastofnunum í Fjarðabyggð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. mar 2024 08:59Uppfært 04. mar 2024 09:00

Yfir 500 manns hafa um helgina skrifað nafn sitt á undirskriftalista þar sem mótmælt er fyrirhuguðum breytingum á fræðslustofnunum Fjarðabyggðar. Þær voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar síðasta þriðjudag og urðu til þess að meirihlutinn sprakk.


Texti undirskriftalistans felur í sér áskorun til bæjarstjórnar að draga samþykktina til baka og farið í „alvöru samráð“ við skólasamfélagið. Aðgerðirnar eru sagðar fordæmalausar, ógna menntun og farsæld barna í Fjarðabyggð auk þess að vega að störfum fagfólks innan skólanna. Gert er ráð fyrir að undirskriftasöfnuninni ljúki á fimmtudag.

Í grófum dráttum fela breytingarnar það í sér að grunn-, leik- og tónskólarnir í Fjarðabyggð verða sameinaðir í eina stofnun fyrir hvert skólastig. Stöðugildi aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra verða lögð niður en í staðinn koma verkefnastjórar með áþekkt hlutverk og aðstoðarskólastjórarnir áður.

Þá verða ráðnir fagstjórar fyrir hvert skólastig sem eiga að vera skólastjórum, sem verða áfram á hverjum stað í leik- og grunnskólum og skólastofnunum til stuðnings og stefnumótunar. Eins verða ráðnir þrír sérfræðingar til skólaþjónustu Fjarðabyggðar.

Breytingarnar byggðu á tillögum starfshóps um fræðslumál. Þær voru samþykktar með átta atkvæðum gegn einu í bæjarstjórn. Meirihlutinn klofnaði þó í málinu og hefðu breytingarnar ekki verið samþykktar nema minnihlutinn hefði samþykkt þær líka. Á fimmtudagskvöld sleit Framsóknarflokkur meirihlutasamstarfi sínu við Fjarðalistann.