Sláturfélagi Vopnfirðinga slitið

Samþykkt var í dag, á fjölmennum hluthafafundi, að slíta Sláturfélagi Vopnfirðinga. Þar með lokar síðasta sláturhúsið sem starfar á Austurlandi. Vonast er til að hægt verði að gera upp allar skuldir með sölu eigna.

Hluthafafundurinn hófst klukkan 14:00 í dag en í hádeginu hafði verið farið yfir stöðuna með sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps. Mikill meirihluti, 86,5%, féllst á tillöguna um að slíta félaginu.

„Ég og við hjá sláturfélaginu erum búin að hafa lengri tíma til að melta þessa stöðu en aðrir og við sáum enga möguleika á að halda áfram að svo stöddu. Á fundinum fengum við umboð til þess að slíta félaginu og selja eignir þess. Okkur sýnist að með sölu á eignum verði hægt að gera upp við alla hluthafa þó það muni sennilega taka mánuði og hugsanlega lengri tíma að klára allt það ferli,“ segir Skúli Þórðarson, framkvæmdastjóri.

Háir vextir helsta orsökin


Rekstur sláturhússins, eins og margra annarra, hefur verið krefjandi árum saman. Allra síðustu misseri hefur þó sigið enn frekar á ógæfuhliðina. Sauðfjárbændum og fé hefur fækkað en um leið hafa orðið miklar verðhækkanir í kjölfar Covid-faraldursins og stríðsins í Úkraínu. Á sama tíma hafa vextir hækkað hérlendis þannig að lán og skuldbindingar hækkuðu um tugi milljóna á stuttum tíma. Síðastnefnda atriðið var það sem að lokum gerði út um Sláturfélagið.

„Það er fyrst og fremst mikill vaxtaklafi. Þú ert með rekstur upp á 500 milljónir króna og þarft lán til sjö, átta mánaða til að fjármagna vörubirgðir. Það geta allir ímyndað sér þann kostnað miðað við vaxtaumhverfið í dag.

Fyrir tveimur árum greiddum við 13 milljónir króna í vexti af lánum, 21 milljón króna 2022 og hvorki meira né minna en 32 milljón króna á síðasta ári. Það er aukning um 20 milljónir á aðeins 24 mánuðum. Þetta er í viðbót við aðra óhagstæða þætti sem kosta milljónir aukalega og fyrirsjáanlegt er að hækki enn frekari eins og síaukið eftirlit ríkisins sem tilkynnt hefur verið um.

Við hér erum undanfarið búnir að velta upp öllum hugsanlegum steinum og sjáum ekki fyrir neinn enda á. Við þyrftum líklega að endurfjármagna starfsemina um hundrað milljónir króna ef við ættum að halda áfram á þessu stigi. Við gætum auðvitað tekið lán út á eignirnar okkar þar sem þær eru skuldbindingarlausar en það þyrfti líka að koma til aukið hlutafé þess utan samkvæmt okkar útreikningum og sú viðbót myndi tapast á næstu þremur árum eða svo,“ segir Skúli.

Fylgt Sláturfélaginu alla tíð


Sláturfélagið hefur skapað fjögur heilsársstörf en yfir sláturvertíðina hafa verið þar 40-50 starfsmenn. Ljóst er að starfsemin og starfsfólkið hafa haft veruleg áhrif á Vopnafjörð þann tíma. Með sláturhúsinu á Vopnafirði lokar síðasta sláturhúsið á Austurlandi en næsta sauðfjársláturhús er nú á Húsavík.

Skúli hefur sjálfur fylgt Sláturfélaginu í gegnum þykkt og þunnt. „Sjálfur er ég búinn að vinna hér um 35 ára skeið frá stofnun þessa fyrirtækis. Slíkur rekstur er það sem ég þekki í þaula þess vegna.“

Allir komi út á sléttu með sölu eigna


Þó áfallið sé mikið er þó það ljós í myrkrinu að sögn Skúla að Sláturfélagið á miklar eignir, ekki aðeins stórt sláturhúsið sjálft í hjarta bæjarins heldur og aðrar verðmætar eignir í bæjarfélaginu. Skúli er bjartsýnn á að geta selt eignir fyrir skuldum.

„Fasteignamatið á eigum Sláturfélagsins er um 130 milljónir. Ég hef góða tilfinningu fyrir að við fáum það á endanum greitt. Það tekur vitaskuld einhvern tíma að losna við allar eignirnar en ég er bjartsýnn á að það gangi eftir til að geta staðið við allar skuldbindingar félagsins.“

Rúmlega 60 hluthafar


Samkvæmt ársreikningi árið 2022 var tap félagsins 15,7 milljónir, rekstrartekjur 461 milljónir og drógust saman um 100 milljónir milli ára. Heildareignir félagsins voru metnar á 539 milljónir, meira en helmingur þess voru vörubirgðir og eigið fé var 32 milljónir. Fasteignir félagsins eru sláturhúsið, frystigeymsla, vöruskemma og tvö íbúðarhús.

Hluthafar í Sláturfélaginu voru 64 talsins. Stærstu einstaki hluthafinn var Kjarnafæði Norðlenska með tæplega 35% eign. Kjarnafæði og síðar hið sameinaða félag hafa keypt alla framleiðslu Sláturfélagsins í um 20 ár. Við samruna Kjarnafæðis og Norðlenska árið 2022 skipaði Samkeppniseftirlitið fyrir um að Kjarnafæði hætti öllum afskiptum af rekstri Sláturfélagsins og skyldi síðan selja hlutinn. Vopnafjarðarhreppur átti einnig 25% í félaginu, Búnaðarfélag Vopnafjarðar 18% en 21% var í eigu annarra, aðallega þeirra bænda í Vopnafirði sem tóku þátt í að stofna félagið árið 1989.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar