Orkumálinn 2024

Samruninn hefur ekki teljandi áhrif á Sláturfélag Vopnfirðinga

Framkvæmdastjóri Sláturfélags Vopnfirðinga, segir samruna Kjarnafæðis og Norðlenska ekki koma til með að hafa teljandi áhrif á rekstur félagsins. Skilyrði um sölu þriðjungs hlutar Kjarnafæðis í Sláturfélaginu sé þó íþyngjandi.

Samkeppniseftirlitið heimilaði á þriðjudag samruna Kjarnafæðis og Norðlenska með skilyrðum. Eitt þeirra er að 34% hlutur Kjarnafæðis í Sláturfélagi Vopnfirðinga verði óvirkur, það er að Kjarnafæði hætti öllum afskiptum af rekstri félagsins, daginn sem samruninn er heimilaður og verði síðan seldur innan tiltekins tíma. Samkvæmt úrskurðinum skal hluturinn seldur bændum eða félagi í eigu bænda.

„Það hefur verið mín skoðun að það sé íþyngjandi og jafnvel stórskaðlegt að vera að hræra í þessum hlut en það hefur ekki verið skoðun Samkeppnisstofnunar. En fyrst það á að selja hann er best að bændur eigi hann,“ segir Skúli Þórðarson, framkvæmdastjóri Sláturfélags Vopnfirðinga.

Auk eignarhaldsins hefur verið í gildi samningur um að Kjarnafæði kaupi allt það kjöt sem Sláturfélagið framleiðir. Þannig hefur fyrirkomulagið verið síðustu 20 ár. Í úrskurðinum er sameinað félag skyldað til að halda áfram viðskiptum við Sláturfélagið í ákveðinn tíma.

Skúli segir mestu skipta að tryggja áfram viðskiptin. „Ég hef engar áhyggjur af samrunanum. Hann hefur verið á okkar borði í heilt ár, að mínu mati hefði Samkeppnisstofnun getað afgreitt þetta á tveimur mánuðum. Nú þarf bara að setja ártal á þann samning sem verið hefur.“

Auk Kjarnafæðis á Vopnafjarðarhreppur 25% í Sláturfélaginu, Búnaðarfélag Vopnafjarðar 18% en 21% eru í eigu annarra, aðallega þeirra bænda í Vopnafirði sem tóku þátt í að stofna félagið árið 1989.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.