Brotthvarf Sláturfélagsins mikið högg fyrir Vopnafjörð

Oddviti sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps segir slit Sláturfélags Vopnafjarðar, sem hluthafar samþykktu á fjölmennum fundi í dag, hafa víðtæk áhrif í sveitarfélaginu. Fyrir utan beint tekjutap hreppsins hafi fleiri fyrirtæki á Vopnafirði notið góðs af umsvifunum á sláturtíðinni.


Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps, sem er stór hluthafi í Sláturfélaginu, flýtti fundi sínum um tvær stundir í dag til að ræða þá niðurstöðu stjórnenda félagsins að komið væri á endastöð í rekstrinum í þessu síðasta sláturhúsi Austurlands.

Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti sveitarstjórnar, segir daginn sorgardag fyrir alla Vopnafirðinga, þó sérstaklega þau sem missa vinnuna hjá félaginu. „Þetta er mikið högg fyrir bæinn og högg fyrir sveitarfélagið sjálft í útsvarsgreiðslum. Það afar miður að missa þessa mikilvægu starfsemi úr bænum og voðalegt, sem nýttist mun fleirum en bara Vopnfirðingum. Þetta síðasta sláturhúsið á Austurlandi og það er afar miður að ekki voru möguleikar til að halda starfinu gangandi.“

Sveitarsjóður verður af tíu milljónum


Vonast er til að sala eigna dugi til að greiða hluthöfum það sem þeir eiga félaginu. Útlit er hins vegar fyrir talsvert tekjutap hjá sveitarfélaginu. „Án þess að ég hafi tölurnar fyrir framan mig myndi ég giska á að tap bæjarsjóðs verði átta til tíu milljónir króna í útsvarsgreiðslur á ársgrundvelli. Ég reyndar ekki viss um hvort fasteignagjöld eru inni í þeirri tölu en þetta er svona nærri lagi. Burtséð frá því þá er þetta auðvitað högg. Tíu milljónir króna fyrir svona lítinn hrepp er bara hellings peningur.“

Vopnafjarðarhreppur hefur lengi vel sýnt Sláturfélaginu stuðning, meðal annars með að vera að vera einn stærsti hluthafi fyrirtækisins gegnum árin. Axel segir að miðað við þær upplýsingar sem fengust bæði á hluthafafundinum í dag og í samtölum síðustu mánuði að sveitarfélagið hefði ekki haft burði til að koma Sláturfélaginu til bjargar.

„Ég sé ekki að okkar aðkoma hefði skipt sköpum. Það hefði þurft að fara í lántökur hjá félaginu og bæta í hlutafé. Það var ekki bókuð nein sérstök afstaða hjá okkur í sveitarstjórn út af þessu en ég held ég geti fullyrt að við vorum ekki tilbúin að setja þetta 30 til 50 milljónir króna í reksturinn. Þess utan þá hafði stjórn Sláturfélagsins samband við okkur að fyrra bragði og fór fram á að við myndum fylgja ákvörðun hennar og slíta félaginu. Það var ekki svo að það hefði verið leitað til okkar til að halda rekstrinum gangandi. En sjálfur held ég að þessi ákvörðun stjórnarinnar hafi verið hárrétt því miðað við útreikninga og bestu aðstæður hefði þetta farið í þrot eftir tvö til þrjú ár. Það hefði verið að kasta góðum peningum á eftir öðrum af hálfu sveitarstjórnar.“

Áhrif út um allan bæ


Þótt fjármagn skipti vitaskuld alla máli þá er fleira sem hangir á spýtunni að sögn Axels. Ekki síst sú staðreynd að þótt stór meirihluti starfsmanna yfir helsta annatímann hafi verið erlendir farandverkamenn þá skiptu þeir miklu máli fyrir önnur fyrirtæki bæjarsins.

„Þarna eru einir fjórir heilsárstarfsmenn að missa vinnuna og ég efast ekki um að það fólk finnur sér annað að starfa. En sú staðreynd að hér verður engin sláturvertíð lengur mun hafa áhrif víða. Færri fá sér að borða á veitingastaðnum USS sem var vinsælt stopp hjá starfsmönnunum, færri muni kaupa sér í matinn í Kaupvangi eða fá sér mat í sjoppunni svo þetta hefur víðtæk áhrif í för með sér. Það eru sem sagt mikil áhrif af þessu fyrir marga þegar engin er sláturvertíðin lengur.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.