„Framar ber að hlýða Guði en mönnum og ég mun sitja sem fastast“

Til deilna kom á fundi sveitarstjórnar Múlaþings á miðvikudag þegar aðrir fulltrúar úrskurðuðu Þröst Jónsson, fulltrúa Miðflokksins, vanhæfan til að taka þátt í umræðu og afgreiðslu um breyting á aðalskipulag vegna Fjarðarheiðarganga. Breytingin, um að leiðin frá göngunum liggi innan við Egilsstaði, var samþykkt þrátt fyrir tugi athugasemda.

Til umræðu og afgreiðslu á fundinum var breyting á aðalskipulagi sem gerir ráð fyrir vegi frá væntanlegum göngum og inn fyrir byggðina á Egilsstöðum, svokallaðri Suðurleið. Miðflokkurinn, með Þröst í fararbroddi, hefur hins vegar barist fyrir að fara út fyrir byggðina eða Norðurleið.

Þröstur var fyrst í fyrrasumar úrskurðaður vanhæfur þar sem bróður hans á jarðir sem væntanleg Suðurleið mun liggja um. Þá ákvörðun kærði hann til innviðaráðuneytisins sem vísaði kærunni frá með þeim orðum að ekki væru gerðar athugasemdir við málsmeðferð sveitarstjórnar. Þar er fjallað um hvernig vanhæfi myndast þegar venslafólk eigi verulegra hagsmuna, umfram almenning, við meðferð máls.

Þá er brýnt fyrir sveitarstjórnarfólki að gæta að vanhæfi sínu í undirbúningi, meðferð eða úrlausn máls því það geti með því gert seinni ákvarðanir ógildar með tilheyrandi tjóni.

Segist hafa fengið lögfræðiþrugl en enga niðurstöðu


Til þessa úrskurðar vísaði Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, þegar hún bar upp vanhæfi Þrastar á fundinum. Þröstur hefur hins vegar túlkað það á annan hátt og óskaði eftir að fá að ræða fundarstjórn forseta, en Hildur Þórisdóttir annar varaforseti tók við stjórninni þegar Jónína tók til máls.

Þröstur sagðist hafna því að innviðaráðuneytið hefði úrskurðað hann vanhæfan heldur hefði það verið að svara beiðni hans um frumkvæðisathugun á stjórnsýslu Múlaþings. Það hafi ekkert fjallað um hæfi hans, ólíkt því sem það hafi gert í öðrum málum. „Það er að verða fordæmalaust mál að ekki fáist úrskurður.“

Í málflutningi sínum vitnaði í Biblíuna, sagðist ekki vilja grípa til bænar Asa konungs því afleiðingar hennar væru skelfilegar fyrir mótherjana en með aðstoð Drottins sigraði Asa tvöfalt stærri her. Þá sagði Þröstur að vanhæfismálið reyndist honum erfitt sem kristnum einstaklingi sem bæri að elska óvini sína og biðja fyrir þeim sem ofsæktu hann „samkvæmt þeim lögum sem eru öllum æðri, það er að segja ritningunni.“ Hann vitnaði til orða Páls postula sem bað fólk um að umbera og fyrirgefa þeim sem sök hefðu unnið öðrum en sagðist játa þá synd að eiga erfitt með þessi orð postulans á fundinum.

Hann sagðist hafa leitað víðar með úrskurð innanríkisráðuneytisins en í ljós hefði komið að hann gæti ekki getað kært til hefðbundinna dómstóla þar sem ráðherrann hefði ekki kveðið upp úrskurð. Þá sagðist hann hafa sent Umboðsmanni Alþingis erindi en fengið svar þaðan í vor að ekki væru gerð athugasemd við að ráðuneytið vísaði frá stjórnsýslukærunni þar sem ekki væri um kæranlega ákvörðun að ræða. Þröstur sagði bréf umboðsmanns „lögfræðiþrugl.“

Bréfaskriftirnar hafa ekki verið birtar á vef Umboðsmanns Alþingis. Þar fengust þær upplýsingar í morgun að tafir væru á birtingum bréfa vegna annarra verkefna en þau ættu öll að birtast fyrir árslok. Embættið sendir bréf þegar ekki eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð en fyrir því geta verið ýmsar ástæður, svo sem að aðrar kæruleiðir hafi ekki verið fullreyndar.

Neitaði að fara úr salnum


Þröstur sagði að það væri því engin niðurstaða um hæfi hans og sagðist reiðubúinn að fara úr ræðustól, enda fengið athugasemd frá fundarstjóra um að stytta mál sitt. Kosningin gæti farið fram en hann áskildi sér rétt til að ræða málið aftur. Hann kvaðst fyrr í vetur hafa vikið við afgreiðslu málsins þar sem hann hefði þá ekki verið búinn að fullreyna kæruleiðir. Staðan nú væri hins vegar sú að hann fengi engin svör um hæfi sitt og bað sveitarstjórn að íhuga þá nýju stöðu.

Hildur ítrekaði orð innanríkisráðuneytisins um að það gerði ekki athugasemdir við málsmeðferð sveitarstjórnar við úrskurð á vanhæfi Þrastar. Vanhæfi hans var því samþykkt með atkvæðum allra annarra sveitarstjórnarfulltrúa.

Þröstur óskaði eftir að koma aftur upp til að bera af sér sakir. Þar ítrekaði hann þá skoðun sína að ekki hefði fallið úrskurður þrátt fyrir þrábeiðnir sínar. „Þótt búið sé að kjósa mig vanhæfan og þar með eigi ég að víkja af fundi þá segi ég eins og Pétur postuli frammi fyrir yfirvöldum í Jerúsalem, til að gæta að lýðræði, sannleika og tjáningarfrelsi í þessu landi: Framar ber að hlýða guði en mönnum og ég mun sitja sem fastast.“

Jónína tók þá aftur við fundarstjórn. Eftir stutt orðaskipti tók hún fundarhlé vegna þess að Þröstur neitaði að víkja. Það stóð í um 40 mínútur. Að hléinu loknu byrjaði hún að skýra frá því að Þröstur neitaði að víkja af fundi. Niðurstaðan væri að hann fengi að sitja en hvorki kjósa né hafa önnur áhrif á afgreiðsluna. Aðalskipulagið var samþykkt með atkvæðum þeirra tíu fulltrúa sem töldust hæfir.

Vanhæfur til að fjalla um fundargerð nefndar


Umræðum um málið á fundinum var þó ekki lokið þar sem fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs, sem vann málið milli funda sveitarstjórnar, var tekin fyrir í lok fundar. Aftur bað Þröstur um orðið undir fundarstjórn. Þar sagðist Þröstur ekki sjá ástæðu til að tefja fundinn frekar og yfirgefa salinn þar sem fyrir hefði legið að honum yrði gert að víkja.

Það breytti því þó ekki að hann sætti sig ekki við að vera dæmdur vanhæfur og mótmæli því að sveitarstjórn úrskurði á þann hátt þótt úrskurðaraðilar hafi ekki tekið undir það. Rétt er að ítreka að í úrskurði ráðuneytisins segir að það geri ekki athugasemdir við afgreiðslu sveitarstjórnar um hæfi Þrastar.

Áður á fundinum hafði Þröstur sagt að ráðuneytið hefði í fyrrahaust komist að þeirri niðurstöðu um að ekki hafi verið rétt að lýsa hann vanhæfan þegar umhverfisskýrsla leiðarvalsins var rædd í byggðaráði í fyrrasumar því ekki hafi verið tekin stjórnvaldsákvörðun á fundinum. Þröstur sagðist það engar afleiðingar hafa haft fyrir ráðið, hann ekki einu sinni verið beðinn afsökunar.

Athugasemd felldi áheyrnarfulltrúa


En Þröstur er ekki eini fulltrúi Miðflokksins sem metinn hefur verið vanhæfur. Þannig var áheyrnarfulltrúi framboðsins talinn vanhæfur til að ræða skipulagsbreytinguna á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs í síðustu viku þar sem hann hefði sent inn athugasemd um hana. Þar með var fulltrúinn að bregðast við orðum í auglýsingunni þar sem sagði að „hver sá sem eigi geri athugasemdir við tillöguna fyrir tilskilinn frest teljist samþykkur henni.“

Lögmenn sveitarfélagsins, með vísan til eldri úrskurða ráðuneytis sveitarstjórnar, töldu fulltrúann vanhæfan við umfjöllum um athugasemdir þar sem hætta væri á að afstaða hans mótaðist út frá eigin athugasemd.

Eyþór Stefánsson, fulltrúi Austurlistans og Helgi Hlynur Ásgrímsson, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, gerðu athugasemdir við orðalag auglýsingarinnar sem virkaði eins og hvatning til athugasemdar. Þá spurði Helgi Hlynur hvers vegna Þröstur teldist vanhæfur í þessari umræðu þar sem ákvörðun um skipulagið lægi fyrir.

Jónína svaraði því til að orðalagið hefði byggt á skilyrði úr eldri reglum og haldist inni af hefð. Það hefði hins vegar verið óheppilegt. Hún benti á að kjörnir fulltrúar hefðu aðstöðu umfram aðra til að hafa skoðun á málum með setu sinni í sveitarstjórn. Þótt óheppilegt væri að fulltrúinn teldist vanhæfur væri það skýrt í lögfræðiálitunum. Þá væri Þröstur vanhæfur þar sem fundurinn stæði enn og gæti hann því enn fjallað um afgreiðslu málsins.

Í frétt DV frá í gær er haft eftir Þresti að í fundarhléin hafi verið rætt að kalla til lögreglu og fá hann fjarlægðan. Þá telji hann að forseti hafi átt að slíta fundinum gæti hann ekki lokið málum. Þar neitar Jónína því að rætt hafi verið að fá lögregluna í hús þótt ýmsir kostir hafi verið reifaðir.

Yfir 90 athugasemdir bárust um aðalskipulagsbreytinguna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.