Athugasemd um leiðarval gerði fulltrúa Miðflokks vanhæfan að sitja fund um málið

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins í umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings var vanhæfur til setu í ráðinu meðan  skipulagstillaga um leiðarval frá Fjarðaheiðargöngum til Egilsstaða var þar til umsagnar. Fulltrúinn hafði sjálfur sent inn athugasemd þegar tillagan var auglýst.

Það er mat lögfróðra aðila sem Múlaþing fékk í kjölfarið til að meta hæfi fulltrúans við afgreiðslu málsins en Austurfrétt hefur álitið undir höndum.

Forsaga málsins er að Hannes Karl Hilmarsson, áheyrnarfulltrúi Miðflokksins í ráðinu, sendi inn formlega athugasemd á auglýsingatíma skipulagsstillögunnar. Tillagan snéri að leiðarvali um svokallaða suðurleið fram hjá byggðinni á Egilsstöðum en Miðflokkurinn í Múlaþingi hefur löngum barist fyrir að farin verði norðurleið þegar þar að kemur.

Ávallt er óskað eftir umsögnum eða athugasemdum almennings vegna aðalskipulagsbreytinga eins og hér um ræðir og þar gjarnan í lokin notað hið staðlaða orðalag að „hver sá sem eigi geri athugasemdir við tillöguna fyrir tilskilinn frest teljist samþykkur henni.“

Þar sem Hannes Karl var mótfallinn tillögunni taldi hann sér skylt að gera formlega athugasemd. „Samkvæmt þessu eru hagsmunir mínir þeir að verða ekki sjálfkrafa gerður samþykkur aðalskiplagsbreytingartillögunni af sveitarfélaginu. Því kem ég athugasemdum mínum á framfæri sem sýna að svo er ekki, með því að lýsa skoðunum mínum á tillögunni, eins og beðið er um. Það að ég hlýði boði yfirvalda í Múlaþingi á nú að nota gegn mér til vanhæfis í umhverfis og framkvæmdaráði. Það stenst enga skoðun og getur því ekki talist annað en tilraun til þöggunar með pólitísku ofbeldi.“

Jón Jónsson, lögmaður hjá Sókn lögmannsstofu á Egilsstöðum, var fenginn til að leggja lögformlegt mat á málið og með vísun til fordæmis úr Hvalfjarðarsveit árið 2011 var álit lögfræðingsins það að Hannes Karl væri vanhæfur í skilningi sveitarstjórnarlaga.

„Telja verður að ætla megi að viljaafstaða áheyrnarfulltrúans til afgreiðslu umhverfis- og framkvæmdaráðs við eigin athugasemdum mótist af því að athugasemdin stafar frá honum sjálfum. Það sama á við um athugasemdir sem eru sama efnis og athugasemdir hans. Hafa ber í huga að eðli athugasemda er að vera lögbundinn andmælaréttur gagnvart skipulagslögum, sem er hluti af gögnum máls og gerð er krafa um sérstaka málsmeðferð stjórnvalds um. Það er því álit undirritaðs að áheyrnarfulltrúinn teljist vanhæfur í skilningi 2. málsgreinar 20. greinar sveitarstjórnarlaga. Vanhæfi taki til umfjöllunar á fundi ráðsins um umsögn áheyrnarfulltrúans og aðrar umsagnir sama efnis, þar með talið þær sem hvíla á þeirri meginathugasemd að mótmæla leiðarvali skipulagsins.“

Tölvuteikning frá verkfræðistofunni Mannvit af gangnaopi Fjarðarheiðarganga Héraðsmegin þegar þar að kemur. Frá þessum stað komu um tíma þrjár mismunandi leiðir til greina að Egilsstöðum og sitt sýndist hverjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.