Skip to main content

Búið að tryggja heimild fyrir innheimtu bílastæðagjalda

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. jún 2024 15:18Uppfært 11. jún 2024 15:24

Isavia Innanlandsflugvellir hefur tryggt heimild sína til að innheimta stöðugjöld af bílum sem lagt er við flugvöllinn á Egilsstöðum. Gjaldtakan hefst í næstu viku.


Isavia Innanlandsflugvellir tilkynnti eftir áramót um áform um gjaldtöku. Þeim var þá frestað eftir mótmæli en auglýst á ný í lok maí að gjaldtakan hæfist 18. júní við flugvellina á Egilsstöðum, Akureyri og í Reykjavík.

Því hefur aftur verið mótmælt og jafnvel efast um lögmæti þeirra. Fyrir fundi sveitarstjórnar Múlaþings á morgun liggur lögfræðiálit þar sem efast er um lögmæti gjaldheimtunnar, meðal annars á þeim forsendum að Isavia Innanlandsflugvelli skorti heimild þar sem landið er í eigu ríkisins.

Á því atriði hefur verið tekið miðað við svar fyrirtækisins við fyrirspurn Austurfréttar um lögmæti gjaldheimtunnar. Þar segir að nýr þjónustusamningur hafi verið gerður við það um rekstur innanlandsflugvalla í síðustu viku, fimmtudaginn 6. júní.

Í þeim samningi er Isavia Innanlandsflugvöllum gefin heimild til að leggja á og innheimta gjald fyrir notkun á bílastæðum við flugvelli.

Í svarinu segir að gjaldinu fari óskert til reksturs og uppbyggingar bílastæða flugvallanna. Það verði nýtt til að bæta þau, lagfæra og tryggja viðhald þeirra.