Innviðaráðuneytið staðfestir vanhæfi fulltrúa Miðflokksins

Innviðaráðuneytið, sem fer með málefni sveitarfélaga í landinu, gerir engar athugasemdir við ákvörðun sveitarstjórnar Múlaþings um að úrskurða Þröst Jónsson, fulltrúa Miðflokksins, vanhæfan við afgreiðslu á veglínum Fjarðarheiðarganga við Egilsstaði. Þröstur telst vanhæfur þar sem bróðir hans og náin skyldmenni eiga umtalsverða hagsmuna að gæta.

Þetta kemur fram í áliti ráðuneytisins sem birtur var á vef þess í gær. Þangað hafði Þröstur kært ákvörðun annarra fulltrúa um vanhæfi hans.

Rætt án þess að efast væri um hæfi

Málið á sér töluvert langan aðdraganda enda unnið að framgangi Fjarðarheiðarganga hjá áður Fljótsdalshéraði og nú Múlaþingi í áraraðir. Þannig rekur Þröstur í kvörtun sinni að hann frá árinu 2020 rætt veglínurnar og farið í gegnum tvennar kosningar þar afstaða bæði hans og Miðflokksins væri skýr. Þröstur og framboðið hafa talað fyrir svokallaðri norðurleið, þar sem farið er út fyrir Eyvindará meðan aðrir bæjarfulltrúar og framboð hafa stutt við Suðurleið sem fer innan við þéttbýlið.

Þröstur segir þennan tíma ekki hafa borið á neinum efa um hæfi hans. Það hafi breyst á sveitarstjórnarfundi nú í lok júní þegar forseti sveitarstjórnar vakti athygli á hæfi hans. Jafnframt var lagt fram álit lögfræðings sveitarfélagsins og svar frá lögfræðingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem virtust sammála um vanhæfi Þrastar.

Á fundinum urðu harðar deilur sem varð til þess að málinu var frestað. Áður höfðu kviknað deilur um bróður hans, Sveins, varaáheyrnarfulltrúa í umhverfis- og framkvæmdaráði. Á næsta fundi, í byrjun júlí, voru allir aðrir fulltrúar sammála um vanhæfi Þrastar í kosningu.

Við þetta bættist að við umræður um skipulagsmál í haust var Þröstur ávíttur af forseta sveitarstjórnar fyrir að ræða veglínurnar. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber forseta að gera slíkt víki sveitarstjórnarfulltrúi verulega frá umræðuefni eða beri annan brigslum. Þá eru vanhæfisreglurnar þannig að fulltrúi, sem úrskurðaður hefur verið vanhæfir, skal víkja og má ekki ræða önnur efnisatriði málsins en hæfi hans. Þröstur hafnaði því og sagði veglínurnar tengjast öðru skipulagi. Hann hefði því verið sviptur málfrelsi sínu.

Mikilvægt að skýra reglur um hæfi

Eftir að ráðuneytið tilkynnti að það myndi taka kæru Þrastar til formlegrar meðferðar lagði hann fram bæði stjórnsýslukæru og ósk um að ráðuneytið gerði frumkvæðisathugun á stjórnsýslu Múlaþings. Síðarnefnda leiðin var sú sem ráðuneytið vildi fara í málsmeðferð sinni. Múlaþing gerði athugasemd við það, taldi frekar um stjórnvaldsákvörðun að ræða. Því hafnaði ráðuneytið. Stjórnvaldsákvarðanir eigi við þegar ákvörðun væri tekin milliliðalaust gagnvart tilteknum aðilum, íbúum eða opinberum starfsmönnum og sé þá endanleg ákvörðun þess valds. Það eigi ekki við þegar rætt sé um málsmeðferð, eins og vanhæfi kjörinna fulltrúa.

Samkvæmt ákvæði sveitarstjórnarlaga um frumkvæðisathugun þá getur sveitarfélagið í kjölfar hennar gefið út álit eða leiðbeiningar um lögmæti athafna sveitarfélags. Ráðuneytið telji í þessu tilfelli mikilvægt að fjalla um málið, bæði vegna ríkra hagsmuna kjörins fulltrúa en ekki síður til að veita betri almennar leiðbeiningar um túlkun vanhæfisins.

Hagsmunir og trúverðugleiki lykilatriði

Á sveitarstjórnarfundinum í júní hafnaði Þröstur því að tengsl og eignir einar og sér gerðu fulltrúa vanhæfa. Í erindum sínum til ráðuneytisins bætti hann við að hann hefði einn stutt norðurleiðina meðan hinir sveitarstjórnarfulltrúarnir tíu greiddu atkvæði með suðurleiðinni. Þátttaka hans hefði því vart haft teljandi áhrif. Þá vísaði hann til ákvæða um að fulltrúar geti ekki beitt vanhæfisákvæðinu sem afsökun til að koma sér undan skyldum sínum heldur beri að taka þátt í fundum nema lögmætar ástæður séu fyrir.

Þröstur og Sveinn eru bræður Gunnars Jónssonar, bónda á Egilsstöðum. Suðurleiðin fer um jarðir sem eru í gegn Gunnars og fjölskyldu hans. Meðal þeirra gagna sem Múlaþing lagði fram í málinu var sérfræðiálit þar sem fram kemur að Gunnar og fjölskylda hans eigi umtalsverða fjárhagslega hagsmuni undir í leiðarvalinu.

Sveitarfélagið viðurkennir að bræðurnir séu ekki sammála um hvaða leiðir skuli farnar en segir það ekki skipta máli. Reglurnar um að fulltrúi skuli víkja sæti þegar málefni varði náin skyldmenni séu almennar en byggist ekki á skoðunum einstaklinga á málunum. Horfa beri til þess hvort umfangs þeirra hagsmuna sem undir eru kunni að hafa áhrif á viljaafstöðu systkina eða aðila sem tengjast kjörnum fulltrúa náið en systkini eru meðal þeirra sem talin eru upp í vanhæfisákvæði sveitarstjórnarlaga. Eins þurfti að taka tillit til þess hvort þátttaka fulltrúans kunni að valda efasemdum út á við. Að endingu benti sveitarfélagið á að aðkoma sveitarstjórnar að skipulagi vegna Fjarðarheiðarganga hafi breyst síðustu tvö ár, áður hafi verið rætt um staka gangakosti eða staðsetningu munna en nú sé komið að veglínunum.

Í áliti ráðuneytisins segir þótt venslafólk, þar með talið systkini, séu talin upp í vanhæfisreglunum þá séu fordæmi fyrir því að hrein tengsl eða jafnvel eignir krefjist þess ekki að kjörinn fulltrúi víki sæti tafarlaust. Slíkt eigi til dæmis við þegar almennt aðalskipulag, sem snertir í raun alla íbúa, er til umfjöllunar.

Hins vegar eigi að horfa til þess, eins og Múlaþing nefnir, hvort hagsmunir venslafólks séu verulegir eða hvort aðkoma fulltrúar geti valdið efasemdum út á við. Slíkt mat geti jafnvel verið háð tíðaranda og það er í höndum sveitarstjórnar. Vanhæfið verður því til dæmis til þegar fjallað er um sértækar breytingar á skipulagi sem skapa verulega hagsmuni fyrir venslafólk fulltrúans.

Engu skipti þótt fulltrúinn sjálfur hafni því, eins og í þessu tilfelli, að tengslin móti afstöðu hans á nokkurn hátt heldur þurfi að meta hagsmunina í hverju tilfelli fyrir sig. Getur það jafnvel átt við þótt venslafólkið sé ekki beinn málsaðili. Engu breyti þótt afstaða fulltrúans liggi fyrir í kosningum og sé jafnvel að hluta til forsenda kjörs hans. Úr áliti ráðuneytisins má lesa að það taki undir sérfræðiálitið sem Múlaþing lagði fram um að hagsmunirnir sem undir séu hjá skyldmennum Þrastar séu umtalsferðir umfram aðra íbúa á svæðinu.

Það leiðir af sér þá niðurstöðu að vísa kæru Þrastar frá og gera ekki athugasemdir við málsmeðferð sveitarstjórnar Múlaþings. Ráðuneytið tók ávíturnar sem Þröstur hlaut í umræðum í haust ekki til sérstakrar meðferðar þar sem það taldi þær tengjast inn í aðra hluta málsins.

Brýna kjörna fulltrúa til að gæta að hæfi sínu

Út úr álitinu má einnig lesa brýningar til sveitarstjórnarfulltrúa um að gæta að eigin hæfi og annarra. Áréttuð er ábyrgð sveitarstjórnarfulltrúa um að vekja tafarlaust á því athygli ef þeir telja eigin hæfi eða annarra orka tvímælis því þátttaka vanhæfs fulltrúa í undirbúningi, meðferð eða úrlausn máls geti gert seinni ákvarðanir ólögmætar eða ógildar með tilheyrandi tjóni fyrir sveitarfélagið og fleiri.

Eins er áréttað fyrir sveitarstjórnarfólki að gegna starfi sínu af samviskusemi með almannahagsmuni að leiðarljósi. „Skyldur og ábyrgð sveitarstjórnarmanna til að vekja athygli á að hæfi þeirra kann að orka tvímælis við afgreiðslu mála eru því mjög ríkar.“

Við umræður um málin í sumar bókaði Sveinn einnig að hann hygðist leita eftir föngum ásjár ráðuneytis og dómstóla vegna meints jafnhæfis. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Austurfréttar segir að aðeins hafi borist ein kæra, það er frá Þresti, vegna vanhæfis í málinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.