Fjarðabyggð hafnar kröfum um að smala ágangsfé

Lögmaður Fjarðabyggðar telur sveitarfélaginu ekki skylt að verða við kröfu landeiganda í Stöðvarfirði um að smala fé af landi hans. Ekki er talið tímabært að taka afstöðu til krafa sem settar hafa verið fram um skaðabætur. Landeigandinn hefur kært meðferð sveitarfélagsins á málinu til innanríkisráðuneytisins.

Landeigendur Óseyrar í Stöðvarfirði fóru fyrst fram á það við sveitarfélagið að það myndi smala fé úr landi þeirra þann 11. júní. Þeir gerðu það með vísan í álit Umboðsmanns Alþingis frá í október í fyrra sem taldi sveitarfélagið Snæfellsbæ ekki hafa brugðist rétt við þegar landeigandi þar bað um að fé sem gekk í landi hans yrði smalað.

Fimm dögum síðar sendi landeigandinn erindi á lögregluna á Austurlandi með ósk um að hún smalaði fénu þar sem sveitarfélagið hefði ekki brugðist við. Var það gert með vísan til úrskurðar dómsmálaráðuneytisins út frá áliti Umboðsmanns að þar sem sveitarstjórn sinni ekki ákalli um smölun eigi lögreglan að ganga í málið.

Lögreglustjórinn á Austurlandi brást hins vegar við með að senda sveitarfélaginu bréf þann 20. júní með spurningum um stöðu málsins þar, hvort sannarlega hefði fyrst verið leitað til þess, hvort vitað hver ætti kindurnar og hvort þær kæmu af afrétt eða heimalandi og hvort svæðið væri girt af. Dómsmálaráðuneytið tiltók að síðastnefnda atriði skipti ekki máli.

Sveitarfélagið svaraði viku síðar. Í svarinu segir meðal annars að grunur sé um hver eigandinn sé og að líklegast komi féð úr heimalandi. Fjallaskilanefnd hafi verið falið að kanna þetta nánar. Í svarinu kemur einnig fram að landið sé ekki girt. Á milli bréfs lögreglustjóra og svarsins hafði innanríkisráðuneytið sent frá sér nýtt álit um hvernig sveitarfélög skyldu bregðast við álitamáli. Þann 3. júlí tilkynnti lögreglustjóri að málið ætti ekki heima þar því það væri í eðlilegum farvegi hjá sveitarfélaginu.

Þörf á að endurskoða lög um málaflokkinn til að skýra réttarstöðu


Í grunninn eru þetta forsendurnar sem deilurnar í Stöðvarfirði, sem og víðar um landinu snúast um. Mismunandi túlkun á ólíkum lögum og hver þeirra séu rétthærri öðrum. Vendipunkturinn var úrskurður Umboðsmanns síðasta haust sem byggir á eignarétti stjórnarskrárinnar sem og eldri lögum um fjallskil og afrétt.

Niðurstaðan var sú að Snæfellsbær hafi ekki haldið rétt á spilunum þegar landeigandi fór fram á að sveitarfélagið smalaði fé úr landi hans og það átt að bregðast við. Umboðsmaðurinn telur að landeigendum sé heimilt að friða land sitt án þess að þurfa að girða það af. Grunnatriði sé að landeigandi þurfi ekki að heimila öðrum notkun á landi sínu, til dæmis til beitar. Þótt slegið sé í og úr með það í yngri lögum telur Umboðsmaður ekki í þeim birtast vilja til að breyta eldri lögum.

Umboðsmaður segir hins vegar að réttaróvissa sé um ýmis atriði málsins og hvetur til þess að lög og reglugerðir um þessu málefni verði endurskoðaðar til að skýra réttarstöðu allra aðila. Ekki sé síst þörf á því í ljósi breyttra samfélagshátta og landnýtingar. Slík úrvinnsla er meðal annars á borði innviðaráðuneytisins, matvælaráðuneytisins og sveitarfélaganna.

Eitt af því sem Umboðsmaður taldi þurfa að endurskoða voru leiðbeiningar innviðaráðuneytisins, sem fer með málefni sveitarfélaganna í landinu, um skyldur sveitarfélaga til að smala ágangsfé. Með vísan til álits Umboðsmanns fellir ráðuneytið niður eldri úrskurð sinn í málinu á Snæfellsnesi.

Mismunandi ábyrgð eftir hvaðan féð kemur


Kostnaðurinn við smölunina er eitt af því sem flækt hefur málið. Í lögum um fjallskil og afréttarmálefni gildir ekki hið sama um fé sem kemur úr afrétt eða heimahögum sem aftur útskýrir að einhverju leyti spurningar Fjarðabyggðar og lögreglustjóra um hvaðan féð komi og hver eigi það. Landeigendur Óseyri hafa á móti bent á að erfitt sé að vita hver eigi féð fyrr en búið sé að ná því.

Í báðum tilfellum ber sveitarfélagi að bregðast við en meðan kostnaður af smölun fjár sem kemur úr afrétti fellur á sveitarfélagið er hægt að senda eigandanum reikninginn komi það úr heimalandi. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur bent á að eigi að fella reikninginn á eigandann þurfi að huga að stjórnsýslulögum, svo sem að gefa eigandanum þá sjö daga frest til að ná því sjálfur. Landeigendur að Óseyri hafa í bréfum sínum látið í ljósi þá skoðun sína að féð komi ekki úr afrétt heldur úr heimalandi gangandi eftir þjóðveginum. Umboðsmaður tók ekki afstöðu til réttarstöðu landeigandans gagnvart sauðfjárbóndanum.

Hvað er verulegur ágangur?


Þá segir í lögunum að ágangur úr afréttinni verði að vera „verulegur eða óeðlilegur“ til að sveitarfélaginu sé skylt að bregðast við. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sagt þetta ákvæði óskýrt og að þetta eigi vart við um gripi sem aðeins eigi leið um eða séu það fáir að þeir valdi ekki skaða sem talandi sé um. Vert er þó að taka fram að Sambandið telur að dómstólar hefðu vart komist að annarri niðurstöðu en umboðsmaður með tilliti til eignaréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.

Á þetta er einnig komið í áliti innviðaráðuneytisins. Þar er einnig að finna gagnrýni á að Umboðsmaður fjalli í sínu áliti ekkert um fjallskilasamþykktir, sem séu hluti af stjórntækjum sveitarfélaga og vísað í dóma Hæstaréttar og Landsréttar um að sauðfjáreigendum sé ekki heimilt að hafa heimil á sínu fé þar sem lausaganga sé leyfð. Innanríkisráðuneytið telur sig ekki þurfa að gefa út leiðbeiningar til sveitarfélaganna, en ráðleggur þeim að móta sér verklagsreglur. Þá er bent á að í gegnum skipulag hafi þau stjórn á landnýtingu innan sinna svæða.

Innviðaráðuneytið tekur hins vegar undir með Umboðsmanni að yfirfara þau lög sem gilda um málaflokkinn. Það segir beint út að endurskoða þurfi búfjár- og girðingalög í takt við breytta tíma áður en allt fari úr böndunum með tilheyrandi kostnaði og nágrannadeilum. Misræmi sé í lögunum þannig orð samræmist ekki framkvæmd. Þá sé sauðfjárrækt enn mikilvæg atvinnugrein, einkum í dreifðum byggðum, á sama tíma og önnur ræktun hafi aukist og vísar því til matvælaráðuneytisins að fara yfir þau mál.

Telja sveitarfélagið bótaskylt vegna athafnaleysis


Að þessu sögðu þá er komið aftur að málinu í Stöðvarfirði. Landeigendur héldu áfram að þrýsta á sveitarfélagið með vikulegum bréfasendingum í júlí. Þar lýsa þeir þeirri skoðun sinni að sveitarfélaginu beri tvímælalaus skylda til að láta smala. Annað sé sinnuleysi sem valdi skaða á landi þeirra sem aukist dag frá degi.

Á þeim forsendum áskilji þeir sér til að sækja bætur til sveitarfélagsins. Vísað er til gjaldskrár Vestmannaeyjabæjar þar sem 3.500 krónur eru lagðar á hvern sólarhring fyrir handsamað búfé. Landeigendur að Óseyri segja um það bil 20 kindur hafa verið í landi þeirra hvern dag frá 14. júní í bréfi sem dagsett er 4. júlí.

Þeir gagnrýna einnig að málinu hafi verið vísað til fjallskilanefndar Fjarðabyggðar, þar sem sitji einstaklingar sem eigi mikla persónulega hagsmuni og séu jafnvel eigendur fjárins. „Rétt eins og ef þjófur væri í húsi manns og væri að brjóta þar og bramla þá getur ekki verið ásættanlegt, eða löglegt, að stjórnvaldi sem falið er að vernda eigurnar taki ekki mál fyrr en á fundi eftir viku og vísi þá málinu í nefnd þar sem varaformaðurinn er að öllum líkindum þjófurinn,“ segir í einu bréfanna.

Þann 11. júlí kærðu landeigendur að Óseyri Fjarðabyggð til innanríkisráðuneytisins fyrir að bregðast ekki við erindinu eins fljótt og kostur væri. Viku síðar sendi lögmaður þeirra bréf til Fjarðabyggðar þar sem kröfur um að land þeirra yrði smalað voru ítrekaðar. Þá er sveitarstjórninni gefnir tíu dagar til að svara hvort sveitarfélagið viðurkenni bótaskyldu sína, ella megi reikna með að mál verði höfðað til viðurkenningar á henni.

Telur girðinguna samt lykilatriði


Sem fyrr segir hefur bæjarráð Fjarðabyggðar yfirleitt vísað erindum landeigendanna áfram til fjallskilanefndar. Í bókun hennar frá 13. júlí lýsir hún þeirri skoðun að endurskoða þurfi fjallskilasamþykkt Múlasýslna þar sem hún taki ekki á ágangi milli svæða innan sveitarfélags. Nefndin treystir sér ekki til að taka afstöðu til erindisins en óskar eftir lögfræðiáliti um stöðu sveitarfélagsins í málinu og samþykkir að hittast aftur þegar það liggi fyrir.

Rétt er að taka fram að varaformaður nefndarinnar vék sæti þegar erindið var tekið fyrir á fundinum. Hann sat heldur ekki fundinn síðasta föstudag þar sem álitið, sem Lögfræðistofa Norðurlands, vann.

Lögfræðingurinn telur sveitarfélagið hafa unnið eins hratt og kostur sér. Hann gagnrýnir landeigendurna fyrir að senda erindi í fleiri áttir því klára eigi mál á einu stjórnsýslustigi áður en leitað sé til þess næsta. Út frá því hefði sveitarfélagið getað beðið enn frekar en hins vegar sé ólíklegt að innviðaráðuneytið fjalli efnislega um málið fyrr en sveitarfélagið hafi lokið því.

Lögfræðingurinn heldur því fram að ágangurinn geti ekki verið óhóflegur eða verulegur þar sem landið sé ekki girt. Þar með séu lagaskilyrði þannig að skylt til að sveitarfélagið þurfi að verða við kröfunni um smölun ekki uppfyllt. Lögfræðingurinn segir engin gögn liggja fyrir um hvaðan féð komið, hvort það komi úr heimahaga eða afrétt. Komi það úr heimahaga væri einfaldast fyrir að landeigandann að hafa beint samband við eiganda fjárins um að smala því. Þá sé marklaust að reka það úr ógirtu landi því allt eins líklegt sé að kindurnar komi strax þangað aftur.

Lögfræðingurinn gerir sem sagt töluvert úr því að landið sé ekki girt sem þó virðist ekki vera skilyrði að mati Umboðsmanns Alþingis. Þá telur lögfræðingurinn að lausaganga sauðfjár hafi verið eins frá fornu fari á sama tíma og Umboðsmaður vísaði til laga sem giltu hérlendis um aldur um að ekki mætti beita leyfislaust á landi annars manns.

Telur engar forsendur til að svara bótakröfu


Varðandi bótakröfuna skrifar lögfræðingurinn að hún sé óskýr og ekkert gert til að afmarka umfang hennar. Þá sé í lögum, meðal annars um skógrækt, ákvæði um að land sé afgirt til að bætur komi til. Því sé ekki tímabært að hafna eða samþykkja bótakörfu. „Morgunljóst er að sveitarfélagið hafi ekki orðið uppvíst að athafnaleysi eða beri að öðru leyti fjárhagslega ábyrgð gagnvart landeiganda,“ segir í niðurlagi lögfræðiálitsins.

Með tilliti til álitsins bókaði fjallskilanefnd Fjarðabyggðar að sveitarfélaginu væri ekki skylt að smala fé úr landi Óseyrar og að hún tæki afstöðu til krafna um bætur. Varðandi þær spurningar sem til nefndarinnar var beint segir að sterkar líkur séu á að féð komu úr Breiðdal en í Stöðvarfirði hafi líka áður komið fé frá Fráskrúðsfirði og af Héraði.

Nefndin vísaði málinu að svo búnu aftur til bæjarráðs. Þær upplýsingar fengust hjá Fjarðabyggð í gær að næsti fundur ráðsins hefði ekki verið boðaður en hann á að boða með tveggja daga fyrirvara.

Hjá sveitarfélaginu Múlaþingi hafa verið lögð fram drög að verklagsreglum um smölun ágangsfjár. Þau eru nú til meðferðar hjá nefndum sveitarfélagsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.